Select Page

Landsliðskonurnar Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir áttu gott mót í dag, en þær kepptu í undanúrslitum í fjölþraut á Heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum.

Thelma, Íslandsmeistari hlaut samtals 46.132 stig, en hennar besta áhald í dag var stökk þar sem hún fékk 12.066 stig. Hildur Maja átti einnig góðan dag og fékk hún samtals 44.065 stig. Hildur Maja keppti með glænýtt stökk þar sem hún framkvæmdi yurchenko stökk með heilli skrúfu í samanboginni stöðu, stökkið skilaði Hildi 12.066 stig sem var hennar besti árangur í dag.

Tilfinningin var mjög góð, svolítið mikið stress en samt mjög góð. Það var gott að hafa svona mikið af áhorfendum á mótinu að hvetja okkur áfram. – Hildur Maja Guðmundsdóttir

Stelpurnar voru með frábært stuðningsmannalið í höllinni sem ferðast hefur alla leið frá Íslandi til þess að sjá þær keppa á stóra sviðinu. Gleðin geislaði af stelpunum.

Með þeim á gólfinu voru þau Ferenc Kováts, landsliðsþjálfari og Elísabet Birgisdóttir, sjúkraþjálfari. Hlín Bjarnadóttir stóð sína vakt við dómarstörfin á slánni.

Tilfinningin er mjög góð, stemmningin var mjög góð í stúkunni og þetta var bara ógeðslega gaman, ég er mjög ánægð með mig. – Thelma Aðalsteinsdóttir


Við minnum á myndasíðu sambandsins þar sem má finna myndir frá mótinu í dag.