Select Page

Íslenska kvennalandsliðið hefur lokið keppni á HM hér í Jakarta, Indónesíu, stelpurnar fara missáttar heim eftir daginn.

Hildur Maja Guðmundsdóttir toppaði sig á stökki þar sem hún framkvæmdi flott stökk og fékk 13,066 stig, sömu einkunn og samlanda sín Lilja Katrín Gunnarsdóttir. Það var ljóst að Hildur Maja mætti einbeitt til keppni í dag og sýndi hún glæsilegar og öruggar æfingar á öllum áhöldum.

Lilja Katrín, sem keppti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti, aðeins 17 ára gömul, átti góðan dag og varð önnur af íslensku konunum með 46,998 stig. Glæsileiki hennar skein sérstaklega í gegn á gólfinu, en fall í uppstökki á slánni setti strik í reikninginn eftir annars nánast hnökralaust mót.

Reynsluboltinn Thelma Aðalsteinsdóttir átti ekki sinn besta dag í dag. Fall á tvíslánni og slánni hafði áhrif á lokaniðurstöðu hennar. Thelma reyndi við erfiðu fimleikaæfinguna sem hún var fyrst í heimunum að framkvæma, og fékk nafnið „Aðalsteinsdóttir“ í reglunum, í dag og var hún nokkrum sentimetrum frá því að takast. Því miður gekk hún ekki í dag en lét Thelma það ekki á sig fá og endaði mótið með stæl.

„Svona eru fimleikar, maður lærir af því að gera mistök, þannig bara áfram gakk“ – segir Thelma Aðalsteinsdóttir

Það er því ljóst að íslensku konurnar verða ekki með í úrslitum á HM að þessu sinni, en þær eru rétt að byrja og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Hér er úrslitalinkur.

Hér má nálgast myndir frá æfingum og keppni.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félaginu þeirra Gerplu innilega til hamingju með árangurinn og hvetjum við allt fimleikaáhugafólk til þess að stilla á RÚV á morgun kl. 11:25 þegar að Dagur Kári Ólafsson verður fyrsti Íslendingurinn til þess að keppa í fjölþrautarúrslitum á heimsmeistaramóti í áhaldafimleikum.