Þessi viðburður er haldinn af Alþjóðlega fimleikasambandinu (FIG) og má þar sjá þær allra bestu spreyta sig. Keppendur Íslands voru: Thelma Aðalsteinsdóttir og Hildur Maja Guðmundsdóttir.
Thelma keppti á þremur áhöldum í undanúrslitum og náði þeim tímamóta árangri íslenskra keppenda að komst í úrslit á tveimur áhöldum. Í undankeppninni fékk hún 13.000 á slá og 13.050 á gólfi sem er hennar besti árangur á áhaldöldunum hingað til og er hún fyrsta íslenska konan til að fá svo háa einkunn á slá í þessum Ólympíuhring.
Hildur Maja keppti á öllum fjórum áhöldunum í undanúrslitum og komst í úrslit á gólfi með 12.650 í einkunn og var svo hársbreidd frá úrslitum á slá þar sem hún var með 12.600 en þar var sama einkunn og þurfti til þess að komast inn í úrslit en þær voru jafnar í 8. – 9. sæti og reglan er sú að sá keppandi sem er með hærri framkvæmdareinkunn fær úrslitasætið þegar að svona aðstæður koma upp. Hildur var því fyrsti varamaður inn í úrslit á slá, sem er eftirtektarverður árangur hjá jafn ungri fimleikakonu sem er að marka sín fyrstu skref í heimsbikarmótaröðinni.
Úrslitadagurinn hófst á áskorun á slánni hjá Thelmu, jafnvægisskortur sem endar með falli, enda er erfitt að framkvæma allar þessar erfiðu æfingar á 10 sm breiðri slá og vera með keppnisstress í líkamanum. Fór svo að hún endaði í 8.sæti en tók með sér dýrmæta reynslu, úrslitareynslu sem mun nýtast henni vel í framtíðarúrslitum.
Gólfið gekk mjög vel hjá stelpunum okkar. Thelma framkvæmdi frábærar æfingar og náði 4. sæti aðeins 0,234 frá bronsinu og Hildur Maja varð í 7. sæti sem er magnaður árangur hjá keppanda í sínum fyrstu úrslitum á jafn sterku móti og heimsbikarmótin eru.
Virkilega góður árangur hjá stelpunum gefur góð fyrirheit um framhaldið en þær halda síðan áfram á vegferðinni og næst tekur við Heimsbikarmót í Koper Sloveníu sem fer fram 30. maí – 2. júní.
Undanúrslit á stökki og tvíslá fara fram 30. maí.
Undanúrslit á slá og gólfi fara fram 31. maí.
Úrslitin fara svo fram 1. og 2. júní.
Virkilega spennandi mót framundan og verður spennandi að sjá hvernig þær mæta til leiks í Koper.
Myndir frá Varna er að finna hér.
Hægt verður að fylgjast með úrslitum í Elevien appinu.