Select Page

Um helgina fór fram heimsbikarmót í Szombathley í Ungverjalandi. Mótið er á hæsta stigi hjá Alþjóðafimleikasambandinu (FIG) og tveir íslenskir keppendur tóku þátt, þeir Ágúst Ingi Davíðsson og Dagur Kári Ólafsson. Þeir kepptu báðir í undanúrslitum á öllum áhöldum og náði Ágúst Ingi þar fjórða besta árangri á gólfi og komst þar með örugglega inn í úrslitin. Í úrslitum gerði hann svo frábæra æfingu sem skilaði honum öruggu fjórða sæti á heimsbikarmóti, geggjaður árangur hjá Ágústi sem er nýlega farinn að keppa aftur á öllum áhöldum eftir að hafa verið að vinna sig upp úr meiðslum. Þetta er besti árangur sem Ísland hefur náð í úrslitum á gólfi en Valgarð Reinhardsson varð fimmti á gólfinu fyrir fimm árum.

Ágúst Ingi var ekki hættur eftir þessi frábæru úrslit en hann var einnig á meðal þeirra bestu á tvíslá og keppti einnig  í úrslitunum þar. Hann var áttundi inn í úrslitin, með sömu einkunn og liðsfélagi hans, Dagur Kári Ólafsson, en skv. reglum FIG þá hlýtur sá sem er með betri einkunn fyrir framkvæmd æfingarinnar úrslitasætið þegar að jafntefli inn í úrslit kemur upp. Hlutskipti Dags Kára voru því að vera fyrsti varamaður. Ágúst Ingi framkvæmdi frábæra æfingu og gerði sér lítið fyrir og hækkaði sig um þrjú sæti og varð í fimmta sæti. Örlitlir hnökrar í lendingu urðu til þess að hann varð ekki á palli, en nú þykir nokkuð ljóst að Ágúst Ingi er kominn fram á sjónarsviðið sem fimleikamaður í þeim gæðaflokki að hann mun blanda sér í baráttu þeirra bestu á komandi tímabili.

Það verður spennandi að fylgjast með karlalandsliðinu á næsta ári, það sem þeir freista þess að bæta liðaárangur sinn á EM í maí enn frekar en þeir gerðu á þessu ári þegar þeir náðu besta árangri Íslands á EM þegar þeir höfnuðu í 19. sæti. En Evrópumótið er einmitt undankeppni fyrir HM í Indónesíu næsta haust.

Frábæru og eftirminnilegu tímabili er nú lokið og getum við öll verið stolt af frábærum árangri íslensks fimleikafólks sem með árangri sínum skrifaði nýjan kafla í sigurgöngu Íslands.

Hér má sjá myndir frá mótinu: WCC í Szombathely – Fimleikasamband Íslands (smugmug.com)

Hér má sjá úrslit: Magyar Torna Szövetség (matsz.hu)