Select Page

Þann 14. maí síðastliðinn settum við af stað verkefnið Hæfileikamótun stúlkna í áhaldafimleikum 2023. Þjálfarar í hæfileikamótun stúlkna eru þær Ingibjörg Þóra Þórarinsdóttir og Sif Pálsdóttir, en þær leiddu einnig verkefnið árið 2022. Í ár mun megináherslan í hæfileikamótun stúlkna vera á líkamlegan undirbúning. Þar sem farið verður í gegnum helstu grunnæfingar í fimleikum sem og styrk.

Verkefnið hófst með fyrstu samæfingu ársins, þann 14. maí síðastliðinn, þar sem að 21 stúlka frá fjórum félögum voru skráðar til þátttöku. Fimleikaæfingin fór fram í íþróttahúsi Gerplu og í beinu framhaldi af æfingunni fengu iðkendur og foreldrar/forráðarmenn kynningu á hæfileikamótun og afreksstarfi FSÍ.

Stelpunum fjölgaði milli æfinga og bættust við 3 stúlkur í hópinn sem mætti á samæfingu í síðustu viku. Æfingin fór fram í Fimleikafélaginu Björk, 8. júní og vakti það mikla lukku þegar að þrjár landsliðskonur mættu í lok æfingarinnar og sátu fyrir svörum. EM fararnir Agnes Suto, Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteindóttir mættu upp í Björk og buðu stelpunum uppá það að spyrja þær spurninga um allt milli himins og jarðar. Skemmtilegt samtal myndaðist milli ungra fimleikastúlkna og meðlima kvennalandsliðsins, enda voru stúlkurnar vel undirbúnar og langaði þeim að vita hvað lykilinn að þeirra velgengni í fimleikum væri. Stúlkurnar fengu afhenta stuttermaboli og var þeim boðin myndataka með landsliðskonunum.

Hæfileikamótun stúlkna er þá komin í sumarfrí og hefjast æfingar aftur í haust. Hér má sjá upplýsingar um verkefnið í heild sinni.