Hæfileikamótun stúlkna í áhaldafimleikum kvenna er nú í fullum gangi. Þær Ingibjörg Þóra Þórarinsdóttir og Sif Pálsdóttir eru þjálfarar í hæfileikamótun stúlkna og settu þær af stað verkefnið nú í byrjun nóvembermánaðar.
Dagana 4.-5. nóvember fór fram fyrsta æfingahelgin í hæfileikamótun stúlkna, æfingarnar fóru fram í fimleikasölum Fylkis og Gróttu. 26 stúlkur frá 7 mismunandi fimleikafélögum mættu ásamt félagþjálfurum sínum. Stúlkurnar komu frá Björk, Fjölni, Fylki, Gróttu, Gerplu, Keflavík og Stjörnunni.
Megin markmið hæfileikamótunar stúlkna er að búa til vettvang fyrir stúlkur úr öllum félögum á ákveðnum aldri og getustigi að hittast og æfa fimleika saman. Stúlkurnar eru allar á aldrinum 11 – 13 ára og fá þær tækifæri til þess að kynnast á æfingunum sem samherjar en ekki mótherjar. Markmiðið er að byggja upp þéttan hóp til framtíðar, stelpurnar fá tækifæri til þess að hittast aftur í næsta mánuði þar sem að stefnt er að því að halda seinni æfinga helgi í hæfileikamótun stúlkna árið 2022.
Markmið hæfileikamótunar er að sama skapi að ná til félagsþjálfara í áhaldafimleikum kvenna á Íslandi en stóð öllum félögum til boða að skrá sína þjálfara til þátttöku. Á fyrstu æfingahelginni var áhersla lög á líkamlegan undirbúning og helstu grunnæfingarnar í fimleikum, styrk og liðleika.
Þetta höfðu þær Ingibjörg og Sif að segja um fyrstu æfingarnar:
Fimleikaæfingar gengur vel fyrir sig og stúlkurnar voru áhugasamar og lögðu sig fram. Við gerðum skemmtilega upphitun allar saman, skiptum stúlkunum í hópa þar sem þær fóru á áhöld þar sem þær gerðu ákveðnar æfingar til að byrja með en voru einnig að vinna með félagsþjálfarnum sínum í þeim æfingum sem þær eru að æfa sig betur í. Enduðum síðan allar saman í lok æfingar og gerðum skemmtilegan þrekhring.
Ingibjörg Þóra Þórarinsdóttir og Sif Pálsdóttir
Fimleikasamband Íslands þakkar stúlkunum, þjálfurum og félögum fyrir skemmtilega helgi og það verður gaman að fá að fylgjast með þessum glæsilegu fimleikastúlkum blómstra á næstu árum.