Select Page

Fyrstu æfingar í hæfileikamótun drengja og opnum æfingum í hópfimleikum fóru fram 13. júní-14. júní síðastliðin. Æfingar í hæfileikamótun voru í boði fyrir þá drengi sem æfa nú þegar fimleika en eru ekki í úrvalshópum landsliða og sú opna fyrir alla þá sem vildu prófa fimleika. Æfingarnar gengu vel og var gaman að sjá framtíðina í fimleikum njóta sín á æfingu saman.

Hæfileikamótun drengja:

Laugardaginn 13. júní fór fram fyrsta æfingin í hæfileikamótun drengja í húsakynnum Stjörnunnar undir stjórn Eysteins Mána Oddssonar, þjálfara í hæfileikamótun, en honum til aðstoðar voru þeir Magnús Óli Sigurðsson og Alexander Sigurðsson.

Æfingin var í boði fyrir þá sem æfa nú þegar fimleika en eru ekki í úrvalshópi landsliða. Æfingarnar eru því ætlaðar iðkendum í kky, kke og eldri iðkendum. Uppfylla þarf ákveðin lágmörk til að taka þátt í æfingunum, en þessi lágmörk eru breytileg og send út fyrir hverja æfingu.

Æfingarnar gengu vel og mættu 17 drengir í kky og 24 drengir í kke.

Markmið verkefnisins er að skapa vettvang fyrir iðkendur til að æfa saman, læra af hvor öðrum og kynnast sem samherjar en ekki mótherjar. Áhersla er lögð á samvinnu félaga og þjálfara. Markmiðið er einnig að fjölga drengjum í íþróttinni og er stefnan sett á að ná í drengjalið fyrir Evrópumót í hópfimleikum á næstu árum.

Myndir af æfingunni má nálgast hér.

Opin æfing á Akranesi

Sunnudaginn 14. júní fór fram fyrsta opna æfingin á árinu, þar sem drengjum fæddum 2005-2011 var boðið að mæta. Æfingin var haldin í fimleikahúsinu á Akranesi undir stjórn Magnúsar Óla Sigurðssonar og Alexanders Sigurðssonar, þeim til aðstoðar var Eysteinn Máni Oddsson. Á æfinguna mættu um 20 drengir sem fengu bæði að kynnast íþróttinni og prófa nýja hluti. Mikil ánægja var æfinguna, enda margir búnir að bíða í eftirvæntingu eftir að verkefnið gæti hafist á ný. Verkefnið hófst í fyrra og fékk mjög jákvæð viðbrögð, en þá voru að meðaltali 60 drengir sem mættu á hverja æfingu,.

Verkefnið er hluti af Hæfileikamótun sambandsins í hópfimleikum og er markmið verkefnisins að auka þátttöku drengja í íþróttinni og verða opnar æfingar því haldnar á mismunandi stöðum á landinu yfir árið. Æfingarnar í ár eru ætlaðar drengjum fæddum árin 2006-2012, bæði fyrir þá sem æfa fimleika nú þegar og þá sem hafa aldrei æft fimleika áður, þeim að kostnaðarlausu.

Myndir af æfingunni má nálgast hér.