Select Page

Gullregn í Osló – Besti árangur Íslands frá upphafi

Íslensku landsliðin í áhaldafimleikum héldu áfram að skrifa nýja kafla í fimleikasögu landsins þegar að úrslit á áhöldum fóru fram á Norðurlandamótinu í Osló í dag.

HILDUR MAJA FJÓRFALDUR NORÐURLANDAMEISTARI

Hildur Maja, Norðurlandameistarinn frá því í gær, gerði sér lítið fyrir og bætti tveimur titlum í safnið þegar hún sigraði bæði á stökki og á jafnvægisslá í dag. Hún gerði sér svo lítið fyrir og krækti svo í silfur á síðasta áhaldi dagsins, gólfi, hársbreitt á eftir stöllu sinni Thelmu Aðalsteinsdóttur sem bætti Norðurlandameistaratitli á gólfi í safnið sitt, en hún varð meistari á jafnvægisslá árið 2022. Thelma keppti einnig til úrslita á tvíslá og jafnvægisslá, en hún er einmitt ríkjandi Norður- Evrópumeistari á tvíslá og var efst inn í úrslitin. Í dag framkvæmdi hún nýja æfingu, sem vonandi mun verða nefnd eftir henni, framkvæmi hún æfinguna á Evrópumóti í vor. Orlítið hik eftir þessa erfiðu nýju æfingu, kostuðu Thelmu gullið í dag, en á sama tíma var reynslan gríðarlega dýrmæt.

VALGARÐ NORÐURLANDAMEISTARI Á GÓLFI

Valgarð pinnaði lendingarnar sínar á gólfinu og framkvæmdi sínar æfingar af mikilli nákvæmi og uppskar verðskuldug gullverðlaun um hálsinn. Hann var þó hvergi nærri hættur, en hann keppti til úrslita á fjórum áhöldum af sex og varð í 2. sæti á svifrá og 3. sæti á tvíslá. Magnaður dagur hjá mögnuðum fimleikamanni sem hefur farið fyrir karlalandsliðinu okkar undanfarin ár. Liðsfélagi hans Martin Bjarni Guðmundsson var varamaður inn í úrslit á stökki, hann var svo sannarlega tilbúin þegar að kallið kom og mætti til leiks fullur sjálfstraust og vann til silfurverðlauna og var svo hársbreidd frá verðlaunapallinum á svifrá. Dagur Kári keppti til úrslita á tvíslá, en hnökrar í afstökki voru dýrkeyptir og kostuðu hann verðlaun í dag, en reynslan fer beint í bækurnar og verður gaman að fylgjast með honum á komandi mótum.

Þessi magnaða frammistaða íslensku keppendanna vekur eftirvæntingu og spennu nú þegar stutt er í Evrópumót en Ísland sendir lið til þátttöku bæði í karla og kvennaflokki.

Unglingarnir okkar áttu frábæran dag í úrslitum á áhöldum – framtíðin björt

Rakel Sara Pétursdóttir átti frábæran dag á Norðurlandamótinu í dag. Hún gerði sér lítið fyrir og vann til verðlauna á þremur áhöldum af fjórum en hún var eini keppandi Íslands sem vann sér sæti í úrslitum á öllum áhöldum. Rakel hóf keppni á stökki þar sem hún vann til silfurverðlauna með tvö vel framkvæmd stökk. Á tvíslá fór hún í gegnum æfinguna sína og endaði í 5. sæti og náði sér í dýrmæta reynslu fyrir framtíðina. Á jafnvægislá vann hún bronsverðlaun þrátt fyrir fall, en hún var með hæstu erfiðleika einkunn dagsins á áhaldinu. Rakel kórónaði svo frábæra frammistöðu sína á NM með silfurverðlaunum á gólfi og stimplaði sig inn sem einn af sigursælustu unglingum mótsins í ár. Kolbrún Eva vann bronsverðlaun á gólfi í dag með frábærum æfingum, þar sem framkvæmdin heillaði alla viðstadda þar sem hún af innlifum dansaði sig inn í hjörtu dómara og uppskar eftir því. Auður Anna keppti til úrslita á stökki en hún var með hæstu einkunn inn í úrslitin frá gærdeginum, hún átti frábært fyrra stökk en fall í seinna stökkinu dró hana niður og kostaði verðlaunasæti. Kristjana Ósk keppti í úrslitum á jafnvægisslá og gólfi og átti góðan dag á meðal þeirra bestu.

Lúkas Ari keppti í þremur úrslitum í dag og vann til bronsverðlauna á tvíslá með frábærum æfingum, hann varð í 6. sæti á bogahesti og 5. sæti á hringjum.

Stefán Máni sýndi frábærar æfingar á svifrá og var hársbreidd frá verðlaunum með þeirri æfingu, en endaði í 5. sæti. Kári og Sólón kepptu báðir í úrslitum á stökki og stóðu sig mjög vel og framkvæmdu góð og hrein stökk, Kári varð í 4. sæti rétt á eftir bronsinu og Sólón í því 5.

Ótrúleg helgi, ótrúlegur árangur sem mun lifa í manna minnum og sýnir að íslenkir fimleikar eru á vegferð þar sem afrekin hrúast inn og blæs okkur baráttuanda í brjóst fyrir komandi verkefnum. Afrekin tala sínu máli og er einstakt að fylgjast með fólkinu okkar uppskera og um leið skapa sér stað á meðal bestu afreksmanna Íslands innan raða ÍSÍ.

Úrslit mótsins má finna hér og myndir hér.

Til hamingju með tímamóta árangur á NM – áfram Ísland