Select Page

Þá er Norðurlandamóti í hópfimleikum á 2023 lokið! Mótið var haldið hátíðlega í Laugardalshöllinni í dag fyrir framan fulla stúku, en mun færri komust að en vildu. Hörðustu stuðningsmennirnir voru mættir fyrir utan höllina klukkan 08:30 í morgun, streymdi fólkið að frá Norðurlöndunum fimm að og mikil stemning skapaðist um leið og keppni hófst í morgun.

Dagurinn í dag hófst með skemmtilegri keppni, þar sem að blöndu lið kepptust um Norðurlandameistaratitilinn. Svíarnir stóðu uppi sem sigurvegarar, en öll þrjú liðin á pallinum komu frá Svíþjóð. EG Vikings sóttu sér Norðurlandameistaratitilinn í blönduðum flokki með 53.825 stig, GK Motust-Salto tóku annað sætið með 53.500 stig og GF Örebro í því þriðja með 51.150 stig.

Þá tók við hörð kvennakeppni þar sem að Ísland átti tvö sterk lið, kvennalið Gerplu og Stjörnunnar. TeamGym Aarhus, frá Danmörku voru krýndar sem Norðurlandameistarar með 54.350 stig, GK Motus-Salto, frá Svíþjóð í því öðru, með 54.000 stig og Brommagymnasterna, einnig frá Svíþjóð í því þriðja með 53.200 stig. 20 ár eru frá því að Danmörk vann titilinn í kvennaflokki seinast.

Kvennalið Gerplu áttu glæsilegt mót en smávægileg mistök settu stórt strik í reikninginn, enda keppnin mjög hörð. Geislaði af þeim glæsileikinn á gólfinu. Þær höfnuðu að lokum í fimmta sæti með 51.150 stig aðeins 0.250 stigum frá fjórða sætinu. Kvennalið Stjörnunnar hófu keppni á mjög erfiðu áhaldi, trampólíni. Liðsumferðin á trampólíninu gekk því miður ekki í dag og kom það niður á lokaeinkunn dagsins. Létu þær það ekki á sig fá og voru þær glæsilegar á dýnu og gólfi. Sjötta sætið var niðurstaðan í dag, með 50.800 stig.

Karlaliðin mættu svo til leiks í seinasta hluta mótsins og það má segja að mótinu hafi verið lokað með flugeldasýningu. Karlalið Stjörnunnar reif steminguna í gang strax í byrjun með stórfenglegri dýnu. Liðið átti nánast hnökralausan dag og geislaði gleðin af liðinu. Strákarnir höfnuðu í sjötta sæti með 54.450 stig. Danirnir voru sterkastir í karlakeppninni, Lið Gladsaxe IF stóð uppi sem sigurvegarar með 62.100 stig. Oslo Turnforening, frá Noregi voru í öðru sæti, með 58.575 stig og KFUMs GA í því þriðja með 57.900 stig.

Að lokum vill Fimleikasamband Íslands þakka sjálfboðaliðum, dómurum, og öðrum sem komu að mótinu, kærlega fyrir alla aðstoðina í dag og síðustu dags. Án ykkar hefði okkur ekki tekist að halda jafn flott mót.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með daginn.