Select Page

Fimm kvennalið og fjögur karlalið mættu til keppni á Bikarmóti í áhaldafimleikum í dag, keppnin fór fram í áhaldafimleikasal Fjölnis, Egilshöll. Fjöldi fólks mætti í stúkuna og hvatti sitt fólk áfram, mikil stemmning myndaðist þegar að liðin kepptu um Bikarmeistaratitilinn.

Gerpla 1 bar sigur úr býtum í bæði karla- og kvennakeppni, liðin vörðu því titlana sína frá því í fyrra. Tvo lykilmenn vantaði í karlalið Gerplu 1, en þeir Valgarð og Dagur eru að ferðast heim frá Þýskalandi eftir að hafa keppt á heimsbikarmóti, ný andlit voru því í bikarmeistaraliðinu.

Gerpla 1 sigraði í kvennakeppninni með 142.899 stig, en sigruðu þær á öllum áhöldum. Í öðru sæti var það ungt lið Stjörnunnar, með reynsluboltanum Margréti Leu í liði með 132.049 stig og í því þriðja var það lið Gróttu með Nönnu Guðmundsdóttur, Íslandsmeistara 2022 í liði með 125.199 stig.

Gerpla 1 sigraði örugglega í karlakeppninni með 218.981 stig, Björk hafnaði í öðru sæti með 203.015 stig og ungt lið Gerplu 2 í því þriðja með 197.415.

Fimleikasamband Íslands þakkar öllum fyrir komuna og óskar keppendum, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með árangurinn í dag. Að auki þá þakkar Fimleikasambandið Fjölni fyrir glæsilegt mótahald um helgina.

Úrslit dagsins má finna hér.

Myndir frá keppninni.