Select Page

Fimleikahringurinn tók sín fyrstu skref í sumar á 17. júní, þegar karlalandsliðið í hópfimleikum hélt sýningu í Vestmannaeyjum. Sýningin var haldin í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum við mikið lof áhorfenda en fjöldinn allur af eyjamönnum mætti til að horfa á strákana. Á föstudeginum var boðið upp á opna æfingu og mættu um 50 strákar og stelpur, sem fengu leiðsögn frá karlalandsliðinu. Á milli sýninga fór liðið og stökk í sjóinn og gerði fimleika úti í náttúrúnni líkt og það mun gera í Fimleikahringnum í sumar. Fimleikahringurinn fer aftur af stað í júlí og mun stoppa á 5 áfangastöðum á leið sinni um landið.

Fimleikasambandið fór í risa stórt verkefni síðasta sumar þar sem Fimleikahringurinn var endurvakinn. Karlalandslið Íslands í hópfimleikum fór í 10 daga sýningaferð hringinn í kringum Ísland og hélt átta fimleikasýningar og námskeið fyrir börn á öllum aldri á mismunandi stöðum á landinu. Markmiðið með verkefninu var að hvetja til heilsueflingar ungmenna í landinu ásamt því að fá fleiri stráka í fimleikahreyfinguna. Mikil ánægja var með ferðina í fyrra og var meðal annars gerð heimildarmynd úr ferðinni sem sýnd var á RÚV þann 3. júní.

Fyrir þá sem hafa ekki séð heimildamyndina um Fimleikahringinn frá 2020, geta séð hana á RÚV hér.

Í ár fer Fimleikahringurinn fram dagana 20.-28. júlí. Líkt og í fyrra fer með tökulið og í kjölfarið verður framleidd önnur heimildarmynd.

Í ár mun Fimleikahringurinn stoppa á 5 stöðum á landinu, á Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi og í Reykjavík. Landsliðshópur kvenna mun sameinast Fimleikahringnum á Selfossi og landsliðshópar unglinga í Reykjavík, þar sem allir landsliðshópar verða kynntir og munu sýna með í lokasýningu Fimleikahringsins.

Verkefnið er hluti af hæfileikamótun sambandsins og sjá landsliðsþjálfararnir Magnús Óli Sigurðsson og Alexander Sigurðsson um framkvæmd þess. Þeim til aðstoðar eru Eysteinn Máni Oddsson og Patrik Hellberg. 

Myndir af opnu æfingunni í Vestmannaeyjum má finna hér.

Hægt er að fylgjast með undirbúningi fyrir ferðina og ferðinni sjálfri á samfélagsmiðlum sambandsins:

Instagram: 

Facebook: