Keppni á Norður Evrópumótinu í Leicester í Englandi lauk með úrslitum á áhöldum í dag. Ísland átti sína fulltrúa í úrslitum á nokkrum áhöldum sem öll stóðu sig með stakri príði. Upp úr stendur 2. sæti á gólfi kvennamegin þar sem Rakel Sara Pétursdóttir leiddi keppnina framan af.
Rakel Sara bætti sig heldur betur á gólfinu í dag, hún kom inn áttunda í úrslitin í gær og gerði sér lítið fyrir og hækkaði einkunnina sína um 0.700 stig sem telst mikil bæting milli daga. Hún átti ekki eins góðan dag á slánni í dag og í gær þar sem hún kom fyrst inn í úrslit en endaði í sjöunda sæti þar með tvö föll. Á stökkinu varð Rakel Sara fjórða eins og í undanúrslitunum. Þóranna Sveinsdóttir hækkaði sig um þrjú sæti á tvíslánni og var hársbreidd frá bronsinu.



Karlamegin gekk að mestu leyti mjög vel. Atli Snær Valgeirsson var í úrslitum á þremur áhöldum af sex og hækkaði sig um tvö sæti á stökkinu. Hann ætlaði sér meira á gólfi en svekkjandi fall setti strik í reikninginn þar og 7. sætið niðurstaðan. Jón Sigurður hækkaði sig um þrjú sæti á svifránni og var jafn Atla Snæ í 5. sæti með 11.650 stig í dag. Á hringjunum ætlaði Jón sér verðlaunasæti en fall í afstökkinu kom í veg fyrir það. Lúkas Ari Ragnarsson kom inn á hringina sem varamaður og endaði sjötti. Sólon Sverrisson átti úrslita sæti á stökki og tvíslá en dró sig úr keppni á stökkinu þar sem Sigurður Ari Stefánsson kom í hans stað.

Úrslit
Rakel Sara Pétursdóttir
Stökk 4. sæti
Slá 7. sæti
Gólf 2. sæti
Þóranna Sveinsdóttir
Tvíslá 4. sæti
Atli Snær Valgeirsson
Gólf 7. sæti
Stökk 6. sæti
Svifrá 5. sæti
Jón Sigurður Gunnarsson
Hringir 5. sæti
Svifrá 5. sæti
Lúkas Ari Ragnarsson
Hringir 6. sæti
Sigurður Ari Stefánsson
Stökk 8. sæti
Sólon Sverrisson
Tvíslá 6. sæti
Dómarar frá Íslandi á mótinu voru Björn Magnús Tómasson, Ragna Þyri Ragnarsdóttir, Sigurður Hrafn Pétursson og Sæunn Viggósdóttir og fá þau bestu þakkir fyrir að standa dómaravaktina þessa helgina.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.
Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum þeirra innilega til hamingju með árangurinn.