Fimleikaþing sambandsins fór fram í Laugardalshöllinni um liðna helgi. Góð mæting var á þingið sem var haldið með breyttu sniði í ár þar sem félögin höfðu áður samþykkt tillögu stjórnar um að einn fulltrúi frá hverju félagi færi með öll atkvæði félagsins til að mæta þeim sóttvarnarreglum sem gilda í landinu. Hefbundin fundarstörf fóru fram og var það Hörður J. Oddfreðarson sem var kjörin þingforseti, þingritarar voru Fjóla Þrastardóttir og Íris Mist Magnúsdóttir, kjörbréfanefnd skipuðu Fanney Magnúsdóttir, Andrea Dan Árnadóttir og Unnur Símonardóttir. Kjörbréf bárust frá 11 félögum og voru alls 92 atkvæði sem félögin fóru með.
Ávarp stjórnarmanns ÍSÍ
Þráinn Hafsteinsson, stjórnarmaður í framkvæmdastjórn ÍSÍ, var gestur þingsins og ávarpaði þingheim og sagði að við getum verið stolt af góðum uppgangi fimleika og þeirri miklu aukningu fimleikaiðkenda milli ára. Um leið minnti hann okkur á hvað við höfum mikil áhrif á uppeldi þessa unga fólks það mun taka allt sem það hafa lært í íþróttinni og eru betur þenkjandi um það hvernig á að ná árangri. Góð skilaboð frá Þránni sem einnig flutti þingheimi kveðju Lárusar Blöndal, forseta ÍSÍ.
Þrjú erindi á þingi
Þrjú erindi lágu fyrir þinginu; fjárhagsáætlun og starfsáætlun sem samþykkt voru með öllum greiddum atkvæðum og erindi frá fimm félögum um koparleyfisgjöld með það að markmiði að endurskoða gjaldtöku af aldurshópnum 2-5 ára. Samþykkt var að búa til starfsnefnd með fulltrúum félaganna um þau málefni sem snúa að erindinu um koparleyfisgjöld og ber starfshópnum að skila tillögum til stjórnar í tíma fyrir fimleikaþing 2021 og gera þar grein fyrir störfum sínum.
Kosið í stjórn
Þrjú framboð bárust í stjórn Fimleikasambandsins og voru þau Hulda Árnadóttir, Þór Ólafsson og Marta Sigurjónsdóttir kosin í stjórn til tveggja ára. Tvö framboð bárust í varastjórn og voru Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir og Guðbjörg Snorradóttir kosnar í varastjórn til eins árs.
Stjórn Fimleikasambandsins 2020 – 2021: Arnar Ólafsson – formaður, Harpa Þorláksdóttir, Hulda Árnadóttir, Kristinn Arason, Kristín Ívarsdóttir, Marta Sigurjónsdóttir, Þór Ólafsson.
Varastjórn Fimleikasambandsins 2020 – 2021: Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir og Guðbjörg Snorradóttir.
Ályktun stjórnar – ofbeldi verður ekki liðið
Fimleikaþing 2020 samþykkti einróma ályktun um að ofbeldi verður ekki liðið. Í ljósi þeirrar umræðu sem skapast hefur um ofbeldi gagnvart iðkendum innan fimleikahreyfingarinnar víða um heim á undanförnum mánuðum, lagði stjórn Fimleikasambands Íslands til að þingið samþykki svofellda ályktun:
„Þing Fimleikasambands Íslands fagnar því að opin umræða hafi átt sér stað um það ofbeldi sem hefur liðist í fimleikahreyfingum víðs vegar um heiminn, því aðeins með hispurslausri umræðu er hægt að sporna við því að slíkt ofbeldi líðist í framtíðinni.
Iðkendur eiga rétt á öruggu umhverfi án alls ofbeldis. Við ætlum öll að taka höndum saman um að ofbeldi í hvaða formi sem er innan fimleikahreyfingarinnar verði ekki liðið. Við erum öll sammála um að standa sameiginlega vörð um faglega meðhöndlun á þeim málum sem upp kunna að koma og við hvetjum jafnframt alla iðkendur og aðra innan hreyfingarinnar til að tilkynna til aga- og siðanefndar Fimleikasambandsins ef þeir upplifa ofbeldi af einhverju tagi við fimleikaiðkun.
Til að fyrirbyggja að iðkendur og aðrir innan hreyfingarinnar verði fyrir ofbeldi og áreitni ætlum við að stuðla að menningu virðingar og jafningjasamskipta og setja aukinn kraft í forvarnir og greiningu á stöðu þessara mála hér á landi.“
Fimleikasambandið þakkar öllum fulltrúum félaga fyrir komuna á þingið sem og þingforseta og þingriturum fyrir sín störf.