ÍSÍ hefur gefið út myndræna tölfræði fyrir árið 2020, sú tölfræði er unnin úr gögnum úr Felix. Felix er miðlægt tölvukerfi ÍSÍ og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og heldur utan um íþróttaiðkendur á Íslandi. Kerfið var fyrst tekið í notkun árið 2004, nýtt og endurbætt kerfi var svo tekið í notkun snemma árs 2017. Samkvæmt nýjustu tölum er Fimleikasambandið þriðja stærsta sérsambandið, líkt og undanfarin ár, með 14.151 iðkendur.
Fjölgun iðkenda FSÍ á milli ára eru 10 iðkendur sem er ekki jafn mikil fjölgun og á síðustu árum, minni fjölgun á milli ára má líklegast rekja til brottfalls vegna Covid sem og að öll fimleikamannvirki eru yfirfull. Engu að síður er hlutdeild FSÍ tæplega 10% af öllum iðkendum íþróttahreyfingarinnar líkt og má sjá á myndinni.
Hlutur FSÍ er nánast óbreyttur frá því í fyrra en þá iðkuðu einnig tæplega 10% allrar íþróttahreyfingarinnar fimleika.
Fimleikar stærsta kvennaíþróttin
Það kemur kannski ekki mörgum á óvart að fimleikar séu stærsta kvennaíþróttin. Samtals 9.654 konur í íþróttahreyfingunni æfa fimleika, sem þýðir að tæplega 17% kvenna æfa fimleika!
Fimleikar eru ekki einungis stærsta kvennaíþróttin heldur æfa 27% kvenna, 17 ára og yngri fimleika, sem þýðir að meira en fjórða hver kona í þessum aldursflokki æfir fimleika!
Körlum í fimleikum hefur fjölgað
Þó svo að iðkendum í fimleikum hefur einungis fjölgað um 10 á milli ára þá hefur körlum í íþróttinni fjölgað um 156 sem er tæplega 4% hækkun á milli ára. Strákarnir okkar í fimleikahringnum hafa síðustu tvö ár farið hringinn í kringum landið og sýnt ungum karlmönnum (og öðrum áhugasömum) listir sínar ásamt því að leyfa þeim að prófa. Þetta verkefni hefur fengið góða og verðskuldaða athygli og höfum við fengið þær fréttir að þetta verkefni hefur haft þau áhrif að meiri eftirspurn er eftir fimleikum karla í félögunum. Í dag æfa 4.497 karlmenn fimleika sem er rúmlega 5% af allri íþróttahreyfingunni. Jafnframt æfa rúmlega 10% karla 17 ára og yngri fimleika.
Samanburður við önnur sérsambönd
Hér á myndinni til vinstri má sjá tíu stærstu sérsamböndin.
Ljóst er að þessi tíu sérsambönd eru ólík. Golf, hestaíþróttir, skotíþróttir og badminton eru íþróttir sem eru mjög vinsælar hjá eldri kynslóðinni á meðan hinar sex íþróttirnar eru hvað vinsælastar hjá yngri kynslóðinni, þó að sjálfsögðu sé eitthvað um eldri iðkendur í þessum greinum.
Til þess að skoða samanburðin á íþróttagreinum betur var ákveðið að bera FSÍ saman við KSÍ (fótbolta), KKÍ (körfubolta), HSÍ (handbolta), FRÍ (frjálsar) og SSÍ (sund).
Það gefur augað leið að með því að taka GSÍ (golf) úr jöfnunni æfa næstflestir fimleika af íþróttahreyfingunni, en af þessum sex íþróttagreinum æfa tæplega 21% fimleika.
Greining á aldri og kyni þessara sex íþróttagreina:
- 36% kvenna 17 ára og yngri æfa fimleika
- 11% karla 17 ára og yngri æfa fimleika
- 15% kvenna 18 ára og eldri æfa fimleika
- 3% karla 18 ára og eldri æfa fimleika
- 33% kvenna æfa fimleika
- 11% karla æfa fimleika
- 25% 17 ára og yngri æfa fimleika
- 7% 18 ára og eldri æfa fimleika
Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða myndræna tölfræði ÍSÍ þá er hægt að skoða hana hér.