Select Page

Fimleikasamband Íslands hefur verið skráð á Almannaheillaskrá og er sú skráning afturvirk allt til upphafs árs. 

Styrkur til félaga/sambandsins á Almannaheillaskrá skapar hvata fyrir einstaklinga og lögaðila til að styrkja við almannaheillamál í formi skattafrádráttar. Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10-350 þús. kr. á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þúsund krónur og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni.  

Frádráttur rekstraraðila getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem framlag er veitt.  

Athugið að greiðslur fyrir vörur og þjónustu skapa ekki rétt til skattafrádráttar. 

Hvernig virkar styrkurinn? 

Hægt er að velja um tvennskonar leiðir. 

  1. Millifærsla á reikning Fimleikasambandsins (að lágmarki 10.000 kr. á almanaksárinu). Í kjölfarið gefur Fimleikasambandið út kvittun sem samsvarar upphæðinni. 
  1. Mánaðarlegar greiðslur settar upp sem bankakröfur. Styrktar upphæð þarf að vera að lágmarki 1.000 kr. á mánuði en getur að sjálfsögðu verið hærri. Eindagi kröfunnar er 5. hvers mánaðar og hefur einstaklingur val um hvort að kvittunar sé óskað eða ekki. 

Fimleikasamband Íslands kemur í báðum tilfellum viðeigandi upplýsingum um frádráttarbæra styrki til Skattsins og við það lækkar skattstofn styrktaraðilans á almanaksárinu. Afslátturinn nemur tekjuskatthlutfalli þess sem veitir styrkinn en hlutfallið er breytilegt eftir tekjum. Styrkveitingar koma því fram á skattframtali hvers og eins þegar skil eiga sér stað.  

Dæmi (Gert er ráð fyrir tekjuskatthlutfalli meðaltekna (37.95%) 

Einstaklingur styrkir Fimleikasamband Íslands um 2.500 krónur hvern mánuð (30.000 krónur á ári) fær 11.385 krónur endurgreiddar í formi skattaafsláttar. Einstaklingur greiðir því 18.385 krónur fyrir 30.000 krónu styrk.  

Hvernig styrki ég Fimleikasambandið? 

Póstur er sendur á fsi@fimleikasamband.is  með eftirfarandi upplýsingum: 

Nafn: 

Kennitala: 

Upphæð styrks: 

Mánaðarlegar kröfur eða einn styrkur:  

Millifærsla eða krafa: 

Í kjölfarið gefur Fimleikasambandið út viðeigandi kvittun sé þess óskað og kemur upplýsingum til Skattsins. 

Hvað verður styrkurinn minn notaður í? 

Fimleikasambandið sendir ár hvert fjöldann allan af keppendum á alþjóðleg mót og verður styrkurinn notaður í kostnað af afreksstarfi sambandsins.  

Ef ég er nú þegar að styrkja Fimleikasambandið hvað þá? 

Fimleikasambandið mun koma viðeigandi upplýsingum til skattayfirvalda og koma allir styrkir veittir til FSÍ á árinu til skattafrádráttar.  

Vilji einstaklingur/fyrirtæki hins vegar hækka sitt framlag má hafa samband við fsi@fimleikasamband.is