Fimleikafélag Akraness fékk afhent glænýtt og stórglæsilegt fimleikahús í ágúst mánuði á þessu ári. Miklar breytingar hafa orðið á Akranesi frá því að fimleikafélagið fékk aðgang að húsnæðinu, enda höfðu eldri hópar haft æfingaaðstöðu í bílskúr í tæp fimm ár.
Þórdís Þöll Þráinsdóttir yfirþjálfari á Akranesi og landsliðsþjálfari í hópfimleikum hefur starfað hjá félaginu síðustu 5 ár og segir breytingarnar gríðarlega miklar.
,,Við vorum að æfa á tveimur stöðum í bænum. Eldri iðkendur æfðu í bílskúr eða vörugeymslu út í bæ og yngri iðkendur æfðu í gömlum íþróttasal á öðrum stað í bænum. Yngri iðkendur höfðu því engar fyrirmyndir, þar sem þau sáu aldrei eldri iðkendur á æfingum. Aðstaðan var líka þannig að það var engin staður fyrir áhorfendur í salnum, sem gerði það að verkum að foreldrar gátu aldrei fylgst með,” segir Þórdís Þöll.
Aðstaðan í bílskúrnum var áætluð tímabundið á meðan beðið var eftir nýja fimleikahúsinu, en hálft ár varð að rúmum fjórum árum. Aðstaðan í húsinu var ekki upp á marga fiska en þegar Þórdís byrjaði að þjálfa hjá félaginu fyrir 5 árum gerði hún sér fljótlega grein fyrir því að fimleikafélagið lét ekkert stoppa sig í að geta æft fimleika að krafti. Til að mynda átti félagið ekki gryfju til að lenda í og því var tekið á það ráð að búa til heimatilbúna gryfju.
,,Til þess að geta gert fimleikastökk í gryfjuna þurfti að hækka fíber brautina (e. fiber track) stundum um 1,5 metra til þess að ná upp í gryfjuna og var fundið á það ráð að setja vörupallettur undir fíber brautina til þess að hækka hana í gryfju hæð. Sjálf hefði ég aldrei geta hugsað mér að gera fimleikaæfingar í þessari upphækkun, en mér fannst iðkendurnir algjörar hetjur að þora því,“ segir Þórdís Þöll.
Stuttu eftir að hún byrjaði að þjálfa hjá félaginu var heimatilbúna gryfjan þó tekin niður.
Þórdís er mjög ánægð með nýja húsið og segir aðstöðuna bjóða upp á mikla möguleika fyrir framtíðina. ,,Við finnum mikið fyrir stærðinni á nýja húsinu, en í gamla salnum gat bara eitt lið verið á æfingu í einu og við gátum ekki haft fullt hlaup á fíber brautina.“ Þrátt fyrir aðstöðuleysi hefur Akranes haldið í sína iðkendur og staðið sig vel í mótum síðustu árin. ,,Mér hefur alltaf fundist merkilegt að við höfum náð að halda í elstu iðkendurna. Við eigum núna meistaraflokk með 16 stelpum í“. Þórdís segist stolt af sínu liði að koma úr bílskúrnum og þora að fara í keppni við stærstu lið landsins sem státa af einum af glæsilegustu fimleikahúsum í heiminum. ,,Vonin er að það komi fleiri lið eins og við upp í meistaraflokk og taki þátt. Það er ekki gaman ef það séu bara bestu liðin sem keppa, það eru allskonar lið í Pepsi deildinni í fótbolta, það er alltaf botn lið og topp lið og það skiptir engu máli, það er það sem býr til deildina“.
Fimleikahringurinn vakti mikla lukku á Akranesi
Fyrsta stopp hjá Fimleikahringnum í sumar var á Akranesi þar sem karlalandslið Íslands í hópfimleikum fór sýningarferð í kringum landið og leyfði öllum börnum og unglingum að prófa fimleika að sýningu lokinni. Þórdís segir að sýningin hafi vakið mikla lukku og verið stór hluti að því að gera fimleika sýnilegri í bænum.
„Við auglýstum Fimleikahringinn rosalega vel á Skaganum, enda var stúkan troðfull. Við vorum svo í kjölfarið með fría fimleika fyrir stráka út september og í kjölfarið jókst gríðarlega skráning hjá drengjum. Við vorum reyndar ekki komin með fimleikahúsið á þessum tíma, en landsliðsstrákarnir sýndu félögunum að það þarf ekki meira en lágmarks búnaðinn sem strákarnir ferðuðust með til þess að hafa fimleika fyrir stráka í bæjarfélaginu“, segir Þórdís.
Hún segir strákana hafa verið einu fyrirmyndina sem þau hafa á svæðinu og mikilvægt fyrir stráka í bænum að sjá þá gera fimleika. „Næsta áskorun hjá okkur er að fara að vinna meira með fótboltanum, svo að æfingar skarist ekki, því að áhuginn greinilega til staðar í samfélaginu“.
Fimleikafélagið orðið fjölmennasta aðildafélag ÍA
Í dag eru þau með um 530 iðkendur og eru fjölmennasta aðildarfélag ÍA. Eftir að húsið og Fimleikahringurinn kom í heimsókn eru fimleikarnir miklu sýnilegri í bænum og iðkendum er búið að fjölga í takt við það. „Nú geta foreldrar komið og horft, þó að Covid-19 hafi sett strik í reikninginn, en eftir að Covid-19 lýkur þá er pláss fyrir áhorfendur, við erum meira að segja með risa stúku til að geta haldið fimleikamót“.
„Draumurinn næstu árin er að félagið haldi áfram að vaxa og að fimleikar verði sýnilegri á Akranesi”. Það er greinilegt að það er ekkert sem stoppar eldmóðinn á Akranesi sem er nú orðið 6. stærsta félag landsins. Ef fram heldur sem horfir þá verða þau orðin að einu stærsta félagi landsins áður en langt um líður.