Fimleikahringurinn fór á sinn fyrsta áfangastað síðustu helgi, þar sem hópurinn hélt sýningu á írskum dögum á Akranesi. Í ár eru 25 landsliðsmenn og konur úr bæði hópfimleikum og áhaldafimleikum sem taka þátt í sýningunni en sýningin var sú fyrsta af þremur í sumar. Verkefnastjórar Fimleikahringsins í ár eru þeir Stefán Ísak Stefánsson og Ingvar Daði Þórisson.
Líkt og áður var börnum og unglingum, af öllum kynjum boðið á æfingu að sýningu lokinni, undir handleiðslu landsliðsins. Fjölmennt var á sýningunni og þátttaka á æfingunni góð. Að lokinni sýningu fór hópurinn niður á Bryggju þar sem þau fengu að hoppa af trampólíninu út í sjó hjá Hopplandi á Akranesi.
Mynd/Hluti af hópnum sem mætti á æfingu í kjölfar sýningu
Næsta sýning fer fram á Selfossi næstu helgi, þann 8. júlí. Sýningin hefst kl. 13:00 í Iðu og í kjölfarið verður öllum krökkum boðið á æfingu með landsliðunum þeim að kostnaðarlausu.
Síðasta sýningin fer fram á opnunarhátíð unglingalandsmóts UMFÍ, föstudaginn 4. ágúst kl. 20:00.
Myndbrot af undirbúningi fyrir sýninguna á Akranesi. Upptaka og klipping/Ingvar Daði Þórisson.
Hægt er að fylgjast með hópnum á instagrammi Fimleikasambandsins: icelandic_gymnastics.
Við viljum þakka aðal styrktaraðila Fimleikasambandsins Icelandair fyrir stuðninginn. Einnig viljum við þakka New wave sem gaf hópnum allan fatnað frá Craft og Soundboks sem lánaði okkur hljóðkerfi. Í lok sýninga verða seldir bolir frá Craft, þeir sömu og sýningarhópurinn klæðist og eru merktir Fimleikahringurinn 2023. Hægt er að greiða með korti. Fyrir þá sem vilja panta sér bol og sækja eða fá sendan, þá er hægt að panta hann hér.
Markmiðið með verkefninu er að kynna íþóttina fyrir Íslendingum hvaðanæva af landinu. Okkur langar í leiðinni að fá fleiri stráka í fimleikahreyfinguna þar sem þeir hafa verið í minnihluta okkar iðkenda, en umfram allt er markmiðið að allir fái að njóta sín á sínum forsendum sama af hvaða kyni þeir eru, því fimleikar eru fyrir alla. Við hvetjum alla til að koma og sjá glæsilega fimleikasýningu og börn og unglinga í framhaldi að prófa fimleika með landsliðum Íslands, sem ætla að kenna allskonar flott ,,fimleikatrix“.
Fyrir áhugasama má sjá heimildarmyndina um Fimleikahringinn 2021 hér, sem sýnd var á RÚV.