Select Page

Stjórn Fimleikasambands Íslands hefur valið fimleikafólk ársins 2023

Fimleikakarl ársins er Valgarð Reinhardsson

Valgarð er okkar fremsti fjölþrautarkeppandi, og er hann nú sjöfaldur Íslandsmeistari. Hann varð Íslandsmeistari í fjölþraut á árinu. Valgarð er einnig  ríkjandi Íslandsmeistari á tvíslá, svifrá og vann til silfurverðlauna á hringjum og bogahesti. Lið Valgarðs, Gerpla, varð einnig bikarmeistari á árinu.

Valgarð keppti til úrslita á gólfi á sterku heimsbikarmóti í Ungverjalandi í haust, en frábæra einkunnin 13.850 í undanúrslitunum skilaði honum inn í úrslitin.

Valgarð vann sér inn keppnisrétt á HM í Antwerpen með frábærri frammistöðu á EM í Antalya, Valgarð lagði allt undir á HM til þess að freista þess að vinna sér inn ÓL sæti, það gekk því miður ekki að þessu sinni en Valgarð stóð sig engu að síður sig mjög vel og sýndi hann og sannaði enn og aftur hversu magnaður fimleikamaður hann er.

Valgarð varð efstur íslensku karlanna á Norður Evrópumótinu sem haldið var í Svíþjóð í nóvembermánuði, þar hafnaði hann í 9. sæti. Valgarð keppti til úrslita á stökki, tvíslá og svifrá. Á úrslitadegi framkvæmdi Valgarð stórkostlega tvísláarseríu sem skilaði honum 13.700 stig, en um ræðir hans bestu tvísláareinkunn hingað til.

Fimleikasamband Íslands er ákaflega stolt af Valgarði Reinhardssyni, sem er orðinn þekktur fimleikamaður um allan heim og sem er fyrirmynd ungra fimleikakrakka í fimleikasalnum sem utan hans.

Einnig nefndir í stafrófsröð;

  • Dagur Kári Ólafsson
  • Jóhann Gunnar Finnsson
  • Markús Pálsson
  • Martin Bjarni Guðmundsson
  • Viktor Elí Sturluson

Fimleikakona ársins er Thelma Aðalsteinsdóttir

Árangur Thelmu á árinu hefur verið stór glæsilegur þar sem hæst ber að nefna Norður Evrópumóts titill á tvíslá. Thelma var í bikarliði Gerplu sem varð bikarmeistari með yfirburðum, hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut og á jafnvægisslá auk þess að vera fastakona í landsliði Íslands.

Thelma keppti á Evrópumóti í Tyrklandi fyrir hönd Íslands fyrr á árinu, en á því móti tryggði hún sér fjölþautarsæti á Heimsmeistaramótinu, varð hún efst íslenskra kvenna á mótinu. Á Heimsmeistaramótinu náði hún markmiðum sínum sem voru að enda með yfir 49 stig í fjölþraut, sem er hennar besti fjölþrautrárangur á alþjóðlegu móti til þessa. Thelma endaði með 49.099 stig og var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikana 2024.

Thelma keppti á World Challenge Cup í Ungverjalandi í september, þar sem hún keppti til úrslita á stökki, bætti hún sig milli daga og endaði hún í 7. sæti. Thelma var einnig fyrsti varamaður inn í úrslit á slá. Á Norður Evrópumótinu í haust varð hún sem fyrr segir Norður Evrópumeistari á tvíslá þrátt fyrir meiðsli sem hún lenti í á æfingadeginum. Var hún meðlimur í kvennaliðinu sem varð aðeins 0.401 stigum frá bronsinu á Norðurevrópumótinu.

Fimleikasambandið er ákaflega stolt af Thelmu sem er að skapa sér nafn í fimleikum á heimsmælikvarða og er það umtalað í heiminum hvað glæsileikinn geislar af henni sem og jákvæðnin sem henni fylgir.

Einnig nefndar í stafrófsröð;

  • Andrea Hanssen
  • Ásta Kristinsdóttir
  • Hildur Maja Guðmundsdóttir
  • Laufey Ingadóttir
  • Margrét Lea Kristinsdóttir

Til hamingju allir!