Stjórn Fimleikasambandsins hefur valið fimleikafólk ársins, á þessu sérstaka ári 2020. Bíðum spennt að sjá hvað 2021 færir fimleikahreyfingunni.
Fimleikakarl ársins – Jónas Ingi Þórisson
Jónas Ingi braut blað í íslenskri fimleikasögu í desember 2020 þegar hann vann sér inn sæti í úrslitum í fjölþraut og á stökki á Evrópumóti í unglingaflokki í áhaldafimleikum. Hann var einnig varamaður í úrslitum á gólfi og tvíslá. Árangurinn er ekki síst eftirtektarverður fyrir þær sakir að síðasta mót Jónasar var Bikarmót FSÍ sem fór fram í febrúar og því 10 mánuðir frá því að hann keppti síðast. Hann hafnaði í 17. sæti í fjölþraut á Evrópumótinu með 72,630 stig og í 7. sæti á stökki, sem er frábært árangur. Þetta eru fyrstu fjölþrautarúrslit Íslendinga á Evrópumóti. Til hamingju Jónas Ingi.
Fimleikakona ársins – Andrea Sif Pétursdóttir
Andrea Sif hefur um árabil verið okkar fremsta fimleikakona í hópfimleikum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í Evrópu. Andrea Sif varð bikarmeistari með kvennaliði Stjörnunnar. Þar keppti Andrea Sif með stökk í hæsta erfiðleikaflokki og skilaði þeim vel. Andrea Sif keppti meðal annars á dýnu með tvöfalt straight með tvöfaldri skrúfu, sem er eitt erfiðasta stökk sem framkvæmt er hjá konum í hópfimleikum. Andrea Sif er ekki bara frambærileg fimleikakona heldur er hún sterkur fyrirliði og glæsileg fyrirmynd ungu kynslóðarinnar. Andrea Sif er vel að titlinum komin og óskum við henni til hamingju.
Lið ársins – Fimleikar fyrir stráka
FFS skipuðu okkar fremstu hópfimleikamenn úr Gerplu og Stjörnunni. Síðastliðin 2 ár hafa þeir haldið „workshop“ og sýningar til kynningar á hópfimleikum, sérstaklega fyrir drengi. Í sumar var svo sannarlega hlaðið í flugeldasýningu en þá heimsóttu strákarnir 7 bæjarfélög um allt land. Fimleikahringurinn tókst einstaklega vel þar sem hópurinn hélt sýningar og „workshop“ sem voru vel sótt af börnum bæjarfélaganna, sem gátu fengið að prufa áhöldin eftir sýnignuna. FFS notaðist við samfélagsmiðla til að koma sér á framfæri og kynna okkar helstu fyrirmyndir í hópfimleikum karla. Þetta verkefnið sýnir svo sannarlega hvað samvinnan er sterk innan fimleikahreyfingarinnar. Það verður gaman að fylgjast með þróun og fjölgun í hópfimleikum, sérstaklega með tilliti til þessa verkefnis. FFS er lið ársins, til hamingju strákar.
Fimleikakarl ársins, 2. sæti – Valgarð Reinhardsson
Valgarð Reinhardsson var stigahæstur þeirra fimleikamanna sem kepptu á Bikarmóti í frjálsum æfingum í febrúar á þessu ári, en það var eina FSÍ mótið sem haldið var í frjálsum æfingum. Á því móti endaði hann 74,500 stig og varði í 2. sæti með liði sínu Gerpla A. Valgarð keppti á EM í desember og var fyrsti varamaður í úrslitum á stökki með sömu einkunn og síðasti maður inn í úrslitin.
Fimleikakona ársins, 2. sæti – Guðrún Edda Min Harðardóttir
Guðrún Edda náði bestum árangri íslenskra kvenna í áhaldafimleikum árið 2020. Hún varð bikarmeistari með félagi sínu Björk og taldi til stiga fyrir liðið á öllum áhöldum. Heildarstig hennar á Bikarmóti voru rúmlega 49. Stig sem hefðu skilað henni sæti á Ólympíuleikunum í Tokyo, en hún hafði því miður ekki aldur til að keppa í undankeppnum fyrir það mót. Guðrún Edda hefur verið fastamanneskja í U-16 liði Íslands undanfarin 2 ár. Spennandi verður að fylgjast með henni á næsta ári.
Fimleikakarl ársins, 3. særti – Einar Ingi Eyþórsson
Einar Ingi keppti með karlaliði Stjörnunnar á Bikarmóti. Þar sýndi Einar Ingi af sér snilldar takta og mikið öryggi í erfiðum stökkum. Meðal annars keppti hann með þrefalt heljarstökk með tveimur og hálfri skrúfu sem er eitt erfiðasta stökk sem framkvæmt er í hópfimleikum. Einnig tók Einar Ingi þátt í Fimleikahringnum á vegum FSÍ.
Fimleikona ársins, 3. sæti – Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman
Kolbrún Júlía keppti með kvennaliði Gerplu á GK- og Bikarmóti og stóð sig vel. Þar keppti Kolbrún Júlía með erfiðustu stökk sem framkvæmd eru á trampólíni hjá konum. Á dýnu keppti hún með kraftstökk heil skrúfa tengt í tvöfaldaskrúfu, sem er með hærri erfiðleikagildum sem við sjáum í framumferð. Kolbrún Júlía keppti með mörg ný stökk á þessu tímabili, en það er ekki síst flottur árangur í ljósi þess að hún hefur verið að vinna sig upp úr erfiðum meiðslum.
Aðrar tilnefningar
- Jón Sigurður Gunnarsson, Ármann
- Ásmundur Óskar Ásmundsson, Gerpla
- Örn Frosti Katrínarson, Stjarnan
- Embla Guðmundsdóttir, Björk
- Thelma Aðalsteinsdóttir, Gerpla
- Dagbjört Bjarnadóttir, Stjarnan