Fimleikafélag Fjarðabyggðar hóf starfsemi í gær 6. janúar, í íþróttahúsinu á Eskifirði. Félagið býður uppá grunnfimleika fyrir börn á leikskólaaldri og hópfimleika fyrir börn á grunnskólaaldri. Í félaginu eru um 170 iðkendur á aldrinum 2 – 16 ára.
„Ég byrjaði að skoða þessa hugmynd síðasta haust, kannaði áhuga hjá foreldrum á Facebook hópum og opnaði óformlega skráningu í kjölfarið. Ég sá strax að áhuginn var mikill og ákvað að opna fyrir formlega skráningu. Við vorum að vona að við myndum ná 100 manns, en á fyrstu vikunni voru 140 búnir að skrá sig og fór það langt fram úr væntingum“, segir Erla Björg Fanney Þórhallsdóttir aðalsprautan í starfseminni.
Sjálf stundaði Erla Björg fimleika á yngri árum með Hetti á Egilstöðum og hefur einnig þjálfað fimleika í Svíþjóð. Hún er komin með tvo þjálfara og óska þau eftir fleiri þjálfurum til að anna eftirspurn, þar sem nú þegar hefur myndast biðlisti.
„Æfingarnar fara fram í íþróttahúsi þar sem stundaðar eru skólaíþróttir á daginn og áhöldin þurfa því að vera geymd í áhaldageymslu þegar ekki eru fimleikaæfingar. Við höfum fengið fimleikaáhöld meðal annars frá Akranesi, Selfossi, Hetti á Egilstöðum og einnig höfum við verið heppin með styrki fyrir áhöldum. Draumurinn er að fá betri aðstöðu fyrir haustið og geta tekið á móti en fleiri iðkendum“ segir Erla Björg.
Við óskum þeim velgengni í þeirra nýja fimleikastarfi.