Select Page

EuroGym hátíðinni er formlega lokið en lokahófið fór fram á fimmtudaginn á leikvellinum fræga hér í Neuchâtel. Hátíðin fer fram næst í Bodø í Noregi árið 2024 og er þemað „Midnight Madness“ þar sem að, líkt og á Íslandi, verður ekki dimmt á sumrin.

Íslensku þátttakendurnir áttu sex frábæra daga í Neuchâtel en borgin er þekkt fyrir að eiga stærsta vatnið í Sviss (Lake Neuchâtel) og héðan sjást Svissnesku alparnir. Vatnið reyndist okkur Íslendingunum vel í þessari ferð, þar sem að ófáir þátttakendur kældu sig í því sem og fóru í vinnustofur þar sem vatnið lék stórt hlutverk í. Selfoss fór til að mynda í vinnustofu þar sem hoppað var af trampólíni út í vatnið.

GALA sýningin ásamt lokahófi fór fram á fimmtudagskvöld og var sýningin að sjálfsögðu stórglæsileg, í GALA sýningu sýna þau lönd sem hafa sótt um að komast að í sýningunni ásamt þeim atriðum sem Fimleikar fyrir alla nefndin taldi vera þau bestu á viðburðinum.

Á EuroGym í ár mættu um 3.000 þátttakendur frá 21 þjóð, sem þykir lítið miðað við þátttöku fyrri ára, til að mynda voru yfir 4.000 þátttakendur á Eurogym árið 2018 í Liege, Belgíu. Eurogym 2022 átti að fara fram á Íslandi en sökum Covid varð að fella hátíðina niður. Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ og stjórnarmeðlimur í Evrópska Fimleikasambandinu, mætti á svæðið á leið sinni til Lausanne í Sviss á stjórnarfund Evrópska Fimleikasambandsins. Margir hafa velt því fyrir sér hvort Ísland ætli að sækja um viðburðinn aftur, þar sem að það er nokkuð ljóst að slíkur viðburður er mikil innspýting inn í efnahag Íslands og aðrar þjóðir eru mjög spenntar fyrir því að heimsækja Ísland.

Okkur langar að sjálfsögðu að sækja um viðburðinn aftur fljótlega, þar sem að slíkur viðburður er frábær kynning á okkar fallega landi sem og að það myndi hjálpa okkur að efla sýningafimleika á Íslandi. Sýningafimleikar ganga ekki út á keppni líkt og aðrar fimleikagreinar, þeir eru fyrir alla aldurshópa og þá sem vilja æfa til að hafa gaman af og stunda líkamsrækt í leiðinni. Við vorum komin vel af stað í skipulagningu á viðburðinum og byrjuðum á því að fresta honum til ársins 2021 þegar Covid mætti á svæðið, við héldum áfram að skipuleggja en því miður varð ekkert af því þar sem að faraldurinn tók engan enda. Þetta hefur kostað okkur mikla fjármuni og vinnu sem við fengum litlar bætur fyrir en vonandi verður okkur það fjárhagslega fært á næstunni og getum sótt um aftur. Það myndi hjálpa okkur mikið ef að þjóðarleikvangurinn verður að veruleika, þar sem að við sjáum núna, eftir 4 ár í skipulagningu að við erum í bráðri þörf fyrir aðstöðu sem gerir okkur kleift að sinna öllum okkar verkefnum.

Íslensku liðin kláruðu sýningarnar sínar á fimmtudaginn en mikið var um skemmtilegar vinnustofur, meðal annars Parkour vinnustofa sem tvö íslensk félög fóru á síðasta daginn sinn. Parkour hefur verið mjög vinsælt á Íslandi undanfarin ár og fellur í dag undir nefndina „Gymnastics For All“ eða „Fimleika fyrir alla“.

Við fararstjórarnir þökkum þátttakendum kærlega fyrir góða samverustund og hlökkum til að sjá sem flesta í Noregi árið 2024.

Myndir eru væntanlegar á Myndasíðu FSÍ á næstu dögum.