Select Page

EuroGym hátíðin fer fram í borginni Neuchâtel í Sviss dagana 10. – 14. júlí. Íslensku liðin mættu á svæðið í fyrradag, laugardaginn 9. júlí.

Hátíðin var opnuð í gær, á Maladiere leikvellinum, með prompi og prakt og það var engin önnur en Hlíf „okkar“ Þorgeirsdóttir sem opnaði hátíðina þar sem að hún er formaður Gymnastics For All nefndarinnar hjá Evrópska Fimleikasambandinu. Starfsmenn FSÍ, sem staddir eru sem fararstjórar á hátíðinni, heyrðu aðeins í Hlíf og spurðu hana um hvernig henni litist á hátíðina í ár.

Hátíðin fór vel af stað með glæsilegri opnunarhátíð þar sem við fengum að sjá það besta sem Svissneskir fimleikar hafa upp á að bjóða. Í dag voru svo vinnubúðir og sýningar um allan bæ og er gaman að sjá hversu fjölbreytt atriðin eru hjá löndunum. Krakkarnir skemmta sér ótrúlega vel og syngja og dansa hér um allan bæ. Þetta er frábær upplifun fyrir iðkendur.

Veðrið hefur leikið við okkur sólarþyrstu Íslendingana og hafa íslensku liðin æft atriðin sín á grasbölum borgarinnar og kælt sig svo í fallega vatni borgarinnar, Lake Neuchâtel.

Íslenska fimleikafólkið byrjaði á vinnustofum í dag og sýndu svo sín glæsilegu atriði seinna í dag í veislutjöldunum sem er tjaldað fyrir sýningarnar. Ánægjan skein af andlitum íslensku þátttakendanna, enda eru verkefnin sem eru á vegum Fimleika Fyrir Alla (Gymnastics for All) með skemmtilegustu verkefnum Fimleikasambandsins.

Sýningahópur Selfoss

Vinnustofurnar sem þau fóru á í dag voru t.a.m.:

 • Popping, sem er ein tegund af Hip-hop
 • Vatnaleikfimi
 • Rope skipping, sem er sippubandslist
 • Hoppað úr hæð á loftbelg
 • Lipur dans (e. agility dance)

Það eru margar spennandi vinnustofur eftir líkt og:

 • Vatnaleikfimi í djúpu vatni
 • Dýfingar
 • Kúbverskur dans
 • Bungyjump dynamic walking, sem er endurbætt norræn ganga sem gengur út á styrktarþjálfun með teygjur
 • Einhokkí (e. unihockey)
 • Hopp út í vatnið
 • Parkour

Krakkanir stóðu sig mjög vel á sviðunum í dag, þar sem þau sýndu flottu atriðin sín undir miklum fögnuði áhorfenda. Það var skemmtileg sjón að sjá hversu ólík atriðin voru og að þau voru öll með ólík þema.

Sýningahópur Stjörnunnar

Fimleikafólkið okkar fagnar svo liðnum degi á kvöldin þegar kvöldskemmtunin hefst en þá eru alltaf ólík tónlistaratriði með ýmsum plötusnúðum eða tónlistarfólki á stóra sviðinu. Samkvæmt þjálfurum og farastjórum ferðarinnar skemmtu þau sér verulega vel í gær og kynntumst krökkum frá hinum ýmsum löndum sem þau eiga hugsanlega eftir að halda sambandi við lengi vel.

Hátíðin mun halda áfram næstu 3 daga og lýkur svo að lokum með glæsilegri GALA sýningu og lokahófi. Áhugasamir geta fylgst með hópunum með eftirfarandi hætti:

Lokahátíðin mun svo fara fram í beinu streymi sem má finna hér.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með þessari glæsilegu fimleikaveizlu, þið munið ekki sjá eftir því! #fimleikarfyriralla