Select Page

Íslensku landsliðin og hópur fylgdarmanna lögðu af stað til Lúxemborgar í gær þar sem Evrópumót í hópfimleikum fer fram dagana 14. – 17. september. Alls eru um 100 manns frá Íslandi, í þeim hópi eru keppendur í fullorðins- og unglingaflokki, þjálfarar, sjúkraþjálfarar, dómarar, starfsfólk Fimleikasambandsins og fjölmiðlar.

Æfingar kvenna- og karlaliðs hefjast á morgun, en unglingalandsliðin æfa í keppnishöllinni í dag. Mótið hefst á miðvikudag en þá fer fram undanúrslit í unglingaflokki og á fimmtudag er undanúrslit í fullorðins flokki. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir tímasetningar keppnisdagana.

Kolbrún Þöll ekki með á EM

Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona ársins og lykilmaður í íslenska kvennaliðinu lenti í því óhappi að slíta hásin á seinustu æfingu fyrir brottför. Kolbrún Þöll hefur verið hluti af landsliði síðan 2012 en þá nældi hún sér í Evrópumeistaratitil í unglingaflokki með stúlknaliði. Hún er ein fremsta fimleikakona Íslands og hefur verið í fararbroddi íslenskra fimleika í um áratug. Við sendum Kolbrúnu baráttukveðjur, hugur okkar er hjá henni og við vitum að hún mun mæta enn sterkari til baka. Kvennaliðið er þó mætt sterkt til leiks þrátt fyrir stórar breytingar rétt fyrir brottför. Andrea Sif Pétursdóttir, sem hefur einnig verið okkar fremsta landsliðskona, slasaðist illa á Evrópumótinu í fyrra. Okkur til mikillrar hamingju mun Andrea þó koma sterk til leiks á Evrópumótinu í ár, þó hún sé ekki búin að jafna sig að fullu, sem fyrirliði kvennaliðsins en hún mun keppa í gólfæfingum í ár.

Beint streymi og úrslitaþjónusta

Evrópska Fimleikasambandið verður með beint streymi frá mótinu og hér má fylgjast með einkunnum mótsins.

Dagskrá og streymi

Við minnum á að allir keppnisdagar eru sýndir í EM horninu í Smáralind og laugardaginn 17. september verður mikil fimleikagleði í Smáralind, þar sem skemmtiatriði og úrslitadagur í kvenna- og karlaflokki verður sýnt í beinni í EM horninu. Styðjum okkar fremsta fimleikafólk og gleðjumst saman!

Skemmtilegar staðreyndir

  • 9 mánuðir frá því að EM var haldið síðast í Portúgal.
  • 17 lönd, 598 keppendur, 318 fullorðnir og 280 unglingar.
  • 13 kvennalið, 6 blönduð og 5 karlalið í unglingaflokki.
  • 10 kvennalið og 8 karlalið í fullorðinsflokki.
  • Mótið fer fram í d‘Couque Sport centre dagana 14. – 17. september.
  • Flestir í All Star liðinu 2021 keppa einnig í ár. Ásta Kristinsdóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson þeirra á meðal. Því miður er Kolbrún Þöll ekki vegna meiðsla.
  • Besti karlinn og konan á öllum áhöldum verða hluti af „All Star“ liðinu: 6 karlar og 6 konur. Liðið verður tilkynnt á laugardaginn.

ÁFRAM ÍSLAND!