Dagur Kári Ólafsson keppti ásamt unglingalandsliði karla á Berlin Cup sem haldið var í rafrænni útfærslu dagana 1. – 5. júní. Ísland átti 4 keppendur á mótinu og stóðu sig allir með prýði og endaði íslenska landsliðið í 10. sæti. Dagur Kári átti einstaklega gott mót og var árangur hans frábær.
Í fréttatilkynningu FSÍ 28. júní var árangur drengjanna á mótinu tekinn saman. Líkt og kom fram í fréttinni átti Dagur Kári einstaklega gott mót og endaði í 3. sæti á tvíslá með einkunnina 12,800. Jafnframt hafnaði hann í 4. sæti á bogahesti með 12,100 stig, 5. sæti á stökki með 12,950 stig og í 5. sæti í fjölþraut með 72,300 stig.
Þar sem að mótið fór fram í rafrænni útfærslu þá gat Dagur ekki stigið upp á verðlaunapall á mótinu til að taka á móti brons medalíunni sinni á tvíslá. Medalían kom þó loksins í pósti frá Þýskalandi nú á dögunum.
Íþróttafélagið Gerpla stöðvaði æfingar sínar í stutta stund í gær þegar Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ, afhenti honum verðlaunin við mikinn fögnuð þeirra sem voru viðstaddir.
Dagur Kári og þjálfarar hans mega vera einstaklega stoltir með árangurinn, enda brosa þeir allir breytt á myndunum sem teknar voru.
Til hamingju með árangurinn Dagur Kári!