Select Page

Helga 24. – 25. febrúar fer fram sannkölluð Bikarmótsveisla í Egilshöllinni, mælum við með að fimleikaáhugafólk taki helgina frá þar sem nóg verður um að vera alla helgina! Mótið fer fram samhliða í sitthvorum salnum í húsinu, áhaldafimleikar keppa í Fimleikasal Fjölnis og hópfimleikarnir í íþróttasal Fjölnis.

Þrjú kvennalið í hópfimleikum

Þrjú kvennalið eru skráð til keppni í meistaraflokk í hópfimleikum, þar með talið ríkjandi bikarmeistaralið Gerplu sem stóð uppi sem sigurvegarar eftir skemmtilega baráttu við Kvennalið Stjörnunnar í fyrra. Kvennalið Stjörnunnar og Kvennalið ÍA eru einnig skráð til keppni.

Fimm kvennalið í áhaldafimleikum

Fimm kvennalið eru skráð til keppni í áhaldafimleikum kvenna. Gerpla sendir til keppni tvö kvennalið en að auki eru kvennalið Stjörnunnar, Björk og Gróttu skráð til keppni. Stefnir í hrikalega skemmtilega keppni um Bikarmeistaratitilinn í ár. Lið Gerplu og Björk hafa skipt með sér bikarmeistaratitlinum síðan árið 2017, Gerpla bar sigur úr býtum í fyrra og 2022, Lið Gerplu er því ríkjandi bikarmeistari í áhaldafimleikum kvenna.

Fimm karlalið í áhaldafimleikum

Karlaliðin í ár eru jafn mörg og kvennaliðin. Fimm karlalið munu keppast um titilinn að þessu sinni, þau eru; tvö lið frá Björk, tvö lið frá Gerplu og eitt samsett lið frá Ármanni og Fimleikadeild KA.

Gerplumenn hafa landað titlinum frá árinu 2017 en Ármenningar lönduðu titlinum árin 2014 og 2016 (Gerpla árið 2015). Ármenningar rufu 17 ára sigurgöngu Gerplu árið 2014.

Bein útsending frá RÚV

RÚV mun sýna beint frá keppni í meistaraflokk í hópfimleikum, laugardaginn 24. febrúar, frá klukkan 15:25 og keppni í frjálsum æfingum í áhaldafimleikum, sunnudaginn 25. febrúar, frá klukkan 15:00.

Endilega fylgist með á samfélagsmiðlum, þar sem að kynning á liðunum fer fram og upplýsingar um miðasölu verða birtar. Hér verður svo ýtarlegt mótarskipulag birt í hópfimleikum og áhaldafimleikum.

Efri röð frá vinstri: Bjartþór (Björk áh kk), Davíð Goði (Björk áh kk), Hekla (Gerpla áh kvk), Margrét Lea (Stjarnan áh kvk), Rökkvi (Ármann/KA áh kk) og Martin Bjarni (Gerpla áh kk). Neðri Röð frá vinstri: Nanna (Grótta áh kvk), Linda (Gerpla hóp kvk), Guðrún (ÍA hóp kvk), Jóhanna (Björk áh kvk), Helena (Stjarnan hóp kvk) og Hildur Maja (Gerpla áh kvk).