Select Page

Bikarmót í áhaldafimleikum fer fram í Gerplu, laugardaginn 28. maí. Mótið hefst kl. 12 og fer miðasala fram við innganginn. Á Bikarmóti er keppt í liðakeppni í frjálsum æfingum karla og kvenna, þar sem að hámarki 5 keppendur eru í hverju liði og telja þrjár hæstu einkunnir á hverju áhaldi til stiga fyrir liðið.

Mótið er fjölmennt í ár

Í ár eru keppendur 73 talsins, 50 í kvennaflokki og 23 í karlaflokki. Til samanburðar voru keppendur á Bikarmótinu í fyrra 44 talsins (27 kvk og 17 kk), á árinu 2020 voru þeir einnig 44 (30 kvk og 14 kk) og á árinu 2019 voru þeir 38 talsins (14 kk og 24 kvk). Því er ljóst að fjöldi keppenda hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma.

Níu kvennalið

Í ár munu níu kvennalið takast á um Bikarmeistaratitilinn, en í fyrra voru þau fjögur. Í ár keppa eftirfarandi lið: Björk 1, Gerpla 1, Grótta, Ármann, Fylkir, Stjarnan, Björk 2, Keflavík og Gerpla A. Frá því í fyrra bætist því við lið Gróttu, Ármanns, Fylkis, Stjörnunnar, Keflavíkur og Gerplu A.

Lið Bjarkanna hefur landað Bikarmeistaratitlinum frá árinu 2020 en árin 2018 og 2019 hafði lið Gerplu sigur úr býtum. 10 ára sigurgöngu Gerplu lauk árið 2015 er Ármenningar tóku titilinn tvö ár í röð þar til Bjarkarstúlkur lönduðu honum árið 2017.

Til gamans má geta að mörg liðanna hafa ekki keppt á Bikarmóti í einhver ár:

  • Þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan sendir lið á Bikarmót
  • Lið Gróttu keppti síðast árið 2020
  • Lið Ármanns keppti síðast árið 2019
  • Lið Fylkis keppti síðast árið 2017
  • Fullmannað lið Keflavíkur keppti síðast árið 2016

Fjögur karlalið

Fjögur lið munu keppa um Bikarmeistaratitil í áhaldafimleikum karla, en það eru Gerpla 1, Gerpla A, Fjölnir og Björk. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2017 sem Bjarkirnar senda frá sér lið á Bikarmót en árin 2018 og 2019 voru Bjarkarstrákar í sameiginlegu liði með Ármanni. Gerplumenn hafa landað titlinum frá árinu 2017 en Ármenningar lönduðu titlinum árin 2014 og 2016 (Gerpla árið 2015). Ármenningar rufu 17 ára sigurgöngu Gerplu árið 2014. Fjölnir sendir lið frá sér annað árið í röð og er það í annað skipti.

Facebook viðburður má finna hér.

Skipulag mótsins má finna hér.