Select Page

Frábærum degi á Norður Evrópumóti hér í Halmstad, Svíþjóð er lokið, keppt var í liðakeppni og fjölþrautarkeppni í dag.

Kvennalið Íslands, þær; Hildur Maja Guðmundsdóttir, Kristjana Ósk Ólafsdóttir, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Margrét Lea Kristinsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir hófu keppni í fyrri hlutanum í morgun. Stelpurnar áttu frábæran dag og enduðu þær grátlega nálægt bronsinu, en aðeins 0.401 skyldi liðin að. Norsku stelpurnar tóku bronsið og var lið Íslands því annað besta liðið af Norðurlöndum í dag. Lið Wales stóð uppi sem sigurvegari í bæði karla og kvennaflokki.

Karlalið Íslands, þeir; Ágúst Ingi Davíðsson, Arnþór Daði Jónasson, Atli Snær Valgeirsson, Dagur Kári Ólafsson, Martin Bjarni Guðmundsson og Valgarð Reinhardsson áttu einnig frábæran dag, leiddu þeir keppnina eftir þrjú áhöld og voru þeir aðrir eftir fjögur. Bogahesturinn var fimmti og varð hann íslenska liðinu að falli í dag. Enduðu þeir í sjötta sætinu með 299.791.

Hildur Maja Guðmundsdóttir varð efst íslenskra kvenna í dag með 47.498 stig í áttunda sætinu, en mjótt var á munum í efstu sætunum. Valgarð Reinhardsson varð níundi í dag með 76.098 efstur íslenskra karla.

Átta íslenskir keppendur í úrslitum á morgun!

  • Hildur Maja Guðmundsdóttir keppir til úrslita á gólfi og er hún varamaður á stökkinu, Hildur var efst allra keppanda eftir daginn í dag á gólfinu.
  • Lilja Katrín Gunnarsdóttir keppir til úrslita á stökkinu, hún var önnur inn í úrslitin.
  • Thelma Aðalsteinsdóttir keppir til úrslita á tvíslánni, hún var þriðja inn í úrslitin og sýndi hún glænýtt afstökk í dag. Thelma er einnig varamaður á gólfinu.
  • Margrét Lea Kristinsdóttir keppir til úrslita á slánni, hún var þriðja inn í úrslitin.
  • Martin Bjarni Guðmundsson kepptir til úrslita á gólfi, stökki og svifrá. Hann var fjórði inn á gólfinu og fimmti á svifránni og áttundi á stökkinu.
  • Valgarð Reinhardsson keppir til úrslita á stökki, tvíslá og svifrá, að auki er hann varamaður á hringjunum.
  • Ágúst Ingi Davíðsson keppir til úrslita á gólfi og hringjum.
  • Dagur Kári Ólafsson keppir til úrslita á tvíslánni en hann var fjórði inn.

Úrslitin á morgun – beint streymi

Úrslitin hefjast klukkan 10:55 á íslenskum tíma á morgun og hér er hægt að kaupa aðgang að beinu streymi.

Hér má finna úrslitin.

Myndir frá deginum verða svo birtar á myndasíðu sambandsins.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með árangurinn í dag og hvetjum við allt fimleikaáhugafólk til þess að horfa á úrslitin á morgun.