Fimleikaþing sambandsins fór fram á Reykjum í Hrútarfirði, laugardaginn 22. maí. Hefðbundin fundarstörf fóru fram og var það Valdimar Leó Friðriksson sem var kjörinn þingforseti, þingritarar voru Fanney Magnúsdóttir og Íris Mist Magnúsdóttir, kjörbréfanefnd skipuðu Hlín Benediktsdóttir, Íris Svavarsdóttir og Ólöf Línberg. Kjörbréf bárust frá 9 félögum og fóru félögin með 25 atkvæði.
Þingstörf gengu vel fyrir sig, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, fór yfir skýrslu stjórnar og Eva Hrund Gunnarsdóttir, fjármálastjóri, fór yfir áritaða reikninga sambandsins. Skýrsla stjórnar og áritaðir reikningar voru samþykktir samhljóma án athugasemda.
Para – Fimleikar
Þing Fimleikasambandins samþykkti að hefja vegferð Para-Fimleika innan sambandins með það að markmiði að stefna á þátttöku í Paralympics, verði innganga þeirra heimiluð af IPC.
Fyrsta skrefið var jafnframt tekið þegar Afreksstefna FSÍ var samþykkt en markmiða kafli hennar var uppfærður með tilliti til keppenda í Para-Fimleikum.
Ávarp 2. varaforseta ÍSÍ
Olga Bjarnadóttir, 2. varaforseti ÍSÍ, var gestur þingsins og bar fram kveðju frá forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ. ÍSÍ þakkar starfsfólki fyrir gott samstarf á árinu. Hún tók fram að skýrsla stjórnar væri sérstaklega góð og sýnir gott starf sem og að ársreikningar væru greinargóðir og skýrir og tók fram að önnur sambönd ættu að taka sér þessa vinnu til fyrirmyndar.
Olga fjallaði um sjálfboðaliða og hversu mikilvægt það sé að huga vel að sjálfboðaliðum. Rauði krossinn er risastór sjálfboðaliðahreyfing, líkt og íþróttahreyfingin, en þau halda sérstaklega vel utan um sína sjálfboðaliða og það er eitthvað sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar. Á heimasíðu Rauða krossins er hægt að fara inn á starfatorg og velja verkefni sem henta þínum áhuga og eru því miklar vonir bundnar við starfshóp ÍSÍ í þessu málefni.
Jafnframt tók hún fram að Fimleikasambandð væri brautryðjandi í keppni óháð kyni, þar værum við öll að læra, en tók fram að við þurfum öll að vera fljót að læra og taka við þeim fjölbreyttu áskorunum sem bíða okkar. Fyrir þinginu liggur einnig plagg um siðareglur.
Það eru krefjandi verkefni í íþróttahreyfingunni, við verðum að passa upp á hvert annað og leita til starfsfólks þegar þessi mál verða stærri en við ráðum við.
ÍSÍ vill vekja athygli á farsælu samfélagi fyrir alla, við þurfum að brúa bilið og efla þátttöku fólks með fatlanir í íþróttum. Olga talar af eigin raun og segir það vera forréttindi að vera með iðkendur með fatlanir í sínu félagi, Gerplu.
Við þurfum að skoða þetta með opnum huga fyrir haustið, sveitarfélögin eru tilbúin að hlusta, þetta skiptir þau miklu máli og þar er tækifæri til að sækja sér pening.
Að lokum hvatti Olga þingfulltrúa til að styrkja íþróttahreyfinguna með því að kaupa lottó.
Ávarp formanns UMFÍ
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteindóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, fjallaði um gríðarlega þörf á þjónustu til nemenda, að grunnskólanemendur þurfi hvíld frá daglegu starfi og því væri dvöl á Reykjum í Hrútafirði, þar sem þingið er staðsett, mikilvægt fyrir ungt fólk. Samkvæmt ánægjuvog ÍSÍ og UMFÍ er aukning á íþróttaiðkun barna í elstu bekkjum grunnskóla. Jafnframt tók hann fram að fimleikar væru á dagskrá Unglingalandsmóts um verslunarmannahelgina.
UMFÍ stefnir að endurskipulagi á skiptingu íþróttahéraða, það þarf að efla íþróttafélögin og bæta starfsumhverfi þeirra. Hann segir að Stjórn UMFÍ bindi vonir um bætt samstarf með flutningum UMFÍ í Íþróttamiðstöðina við Engjaveg.
Jóhann hrósaði FSÍ fyrir nálgun sína varðandi börn með sérþarfir, einnig hrósaði hann nálguninni við að auka þátttöku drengja í íþróttinni með Fimleikahringnum o.s.frv.
Ávarp gesta
Kristján Erlendsson, fyrrum formaður FSÍ, tók til máls og fjallaði um mikilvægi Þjóðarhallar og hvað fimleikar væru í hans huga.
Olga Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Gerplu, tók einnig til máls og þakkaði þeim félögum sem mættu á þingið og lagði áherslu á að þetta væri vettvangur félaganna til að koma sínum skoðunum á framfæri. Jafnframt þakkaði hún þeim félögum sem mættu á laugardeginum á formannafundinn og í kvöldverðinn. Við ættum að hittast oftar, svo við getum kynnst betur og talað saman.
Íris Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Fjölnis, tók að lokum til máls og þakkaði fjármálastjóra fyrir mjög góða greinargerð með ársreikningi FSÍ og skrifstofu og stjórn fyrir einstaklega góða skýrslu stjórnar.
Starfsnefndir þingsins
Fjórar starfsnefndir voru starfræktar á þinginu; fjárhagsnefnd, móta- og afreksnefnd, laganefnd og allsherjarnefnd. Nefndarstarfið gekk vel fyrir sig og kláruðu allar nefndir störf sín á undan áætlun, en miklar og góðar umræður fóru fram sem munu skila sér í faglegu og góðu starfi á næstu árum.
Sjórn Fimleikasambandsins
Á þinginu var Sigurbjörg Fjölnisdóttir kosin sem formaður FSÍ til næstu tveggja ára.
Einnig var kosið í fjórar stöður stjórnarmanna en aðrir í stjórn eru:
Þór Ólafsson og Marta Sigurjónsdóttir.
Þeir sem voru kosnir í stjórn til tveggja ára eru; Axel Þór Eysteinsdóttir, Halldóra S. Guðvarðardóttir og Magnús Heimir Jónasson.
Einn var kosinn í stjórn til eins árs en það var Dýri Kristjánsson.
Í varastjórn voru kosin: Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir og Trausti Þór Friðriksson.
Við viljum þakka þeim fulltrúum félaganna sem mættu á formannafund og á þingið okkar. Það er alltaf jafn mikilvægt fyrir okkur að tala saman og betrumbæta umhverfið okkar. Fulltrúar þingsins sýndu hvað í þeim býr sem sjálfboðaliðar og aðstoðuðu okkur við að ganga frá. Þetta frumkvæði þeirra lýsir mikilvægi sjálfboðaliðans svo vel – takk fyrir okkur!