Select Page

Ársþing 2024 fór fram í fundarsal Þróttar fimmtudaginn 16. maí.

Hefðbundin fundarstörf fóru fram, Auður Inga Þorsteinsdóttir var kjörinn þingforseti, þingritari var Fanney Magnúsdóttir og kjörbréfanefnd skipuðu þær Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir, Þórdís Þöll Þráinsdóttir​ og Auður Ólafsdóttir​. Félögin fóru með 42 atkvæði á þinginu og má sjá á þátttökunni að við erum að ná upp fjölda þingfulltrúa frá Covidtímabilinu.

Þingstörf gengu hratt og vel fyrir sig, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, fór yfir skýrslu stjórnar og Ragnar Magnús Þorsteinsson, fjármálastjóri, fór yfir áritaða reikninga sambandsins sem voru samþykktir samhljóma án athugasemda.

Lengst umræða fór í vonbrigði sambandsins með úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ og vinnubrögð regnhlífarsamtakanna allt frá því að úthlutun var tilkynnt. Farið var yfir tímalínu frá úthlutun, þau svör sem sambandinu hafa borist og hvernig við getum staðið saman í næstu skrefum.

Lög sambandsins voru uppfærð í samræmi við tilmæli frá ÍSÍ, starfsáætlun og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var samþykkt. Í ljósi þeirra breyttu aðstæðna eftir að úthlutun Afrekssjóðs fyrir árið 2024 var kunngjörð, var farið yfir uppfærða fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og þingheimi gert ljóst að sambandið mun koma út í að minnsta kosti 18.500.000 mínus eftir árið. Munar þar mest um að úthlutun úr sjóðnum er 15,2 milljón lægri en frá 2022 sem er samanburðarhæft ár við 2024 og var þessi ráðstöfun mikið áfrall fyrir sambandið, sem samþykkti á Fimleikaþingi 2023 að árið í ár yrði stærsta og umfangsmesta ár frá upphafi sambandsins. FSÍ hefur sett sér markmið um að reyna, eftir allra fremsta megni að setja verndarvæng yfir landsliðsstarfið okkar, en löng fjarlægð á keppnisstaði reynist okkur þungur biti.

Í ár fóru fram kosningar þriggja einstaklinga í stjórn og eins varamanns, til tveggja ára.

Þær Ása Inga Þorsteinsdóttir, Marta Kristín Sigurjónsdóttir og Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir tóku sæti í stjórn FSÍ og Dýri Kristjánsson tók sæti í varastjórn.

Stjórn og Skrifstofa FSÍ þakkar Þór Ólafssyni kærlega fyrir áralangt, farsælt samstarf, en hann lét af störfum á þinginu. Þingi var slitið kl. 18:26 og þakkar Fimleikasambandið öllum þeim sem láta sig málefni fimleikahreyfingarinnar sig varða. Við erum öll FSÍ og saman getum við staðið vörð um okkar mikilvægu hagsmuni, iðkendurna og fólkið okkar.