Uppskeruhátíð Fimleikasambandsins fór fram í Laugardalshöll fimmtudaginn 17. mars þegar árangri ársins 2021 var fagnað. Við þetta tækifæri var Árni Þór Árnason fyrrum formaður Fimleikasambandsins gerður að heiðursfélaga auk þess sem fimleikafólk ársins, lið ársins og afrek ársins voru verðlaunuð.
Stefán H. Stefánsson hlaut starfsmerki sambandsins fyrir sjálfboðaliða störf innan fimleikahreyfingarinnar, sonur Stefáns, Sigurður Ari Stefánsson tók við viðurkenningunni fyrir hönd pabba síns.
Lið ársins 2021 er án efa kvennalandsliðið í hópfimleikum sem varð Evrópumeistari eftir harða keppni við Svíþjóð. Liðið samanstendur af okkar bestu hópfimleikakonum úr Gerplu og Stjörnunni en allar tala þær um að góð liðsheild og samstaða hafi einkennt liðið.
Kolbrún Þöll Þorradóttir er fimleikakona ársins 2021. Kolbrún er ein af bestu hópfimleikakonum Evrópu og sýndi það með því að stökkva erfiðustu stökk Evrópumótsins.
Helgi Laxdal Aðalgeirsson er fimleikamaður ársins 2021. Helgi var í karlaliði Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum þar sem liðið varð í 2. sæti. Helgi var í öllum umferðum liðsins á dýnu og trampólíni og var valin í lið mótsins fyrir stökk sín á dýnunni.
Afrek ársins 2021 er landsliðin í hópfimleikum. Fjögur lið voru send á Evrópumótið í hópfimleikum og komu öll liðin heim með verðlaun. Blandað lið unglinga hafnaði í 3. sæti, stúlknaliðið og karlaliðið í 2. sæti og kvennaliðið í 1. sæti.
Leiðtogi ársins er Andrea Sif Pétursdóttir fyrirliði kvennalandsliðsins í hópfimleikum. Andrea er reynslubolti í íþróttinni og er góð í að hvetja sitt lið og styðja sína liðsfélaga.
Hlín okkar Bjarnadóttir var sæmd gullmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu fimleikahreyfingarinnar í gegnum tíðina. Hlín var landsliðskona í áhaldafimleikum síðar þjálfari í greininni og er nú einn af okkar bestu dómurum. Hún hefur setið í nefndum fyrir Fimleikasambandið í mörg ár auk þess að taka að sér verkefni fyrir Íþrótta- og Olympíusambandið. Við erum mjög stolt af Hlín og viðurkenningunni hennar. Til hamingju Hlín!
Fimleikasambandið þakkar öllum sem mættu kærlega fyrir komuna og skemmtilega stund á Uppskeruhátíðinni. Til hamingju öll með ykkar árangur og hlökkum til að vinna með ykkur innan salar sem utan í framtíðinni.
Fleiri myndir frá hátíðinni má sjá hér.