Á Fimleikaþingi síðastliðinn laugardag var Arnar Ólafsson sæmdur gullmerki ÍSÍ.
Hafsteinn Pálsson, varaforseti ÍSÍ, lauk erindi sínu á Fimleikaþingi með því að sinna embættisverki fyrir hönd ÍSÍ og var það að veita Arnari gullmerki.
Arnar hefur unnið mikið og gott starf fyrir Fimleikasambandið og því hefur framkvæmdastjórn ÍSÍ ákveðið að sæma hann gullmerki ÍSÍ.
Líkt og áður hefur komið fram lét Arnar af starfi formanns á þinginu eftir að hafa sinnt starfinu frá árinu 2014 en Arnar sat í stjórn FSÍ í 9 ár.
Við óskum Arnari til hamingju með heiðurinn.