Select Page

Anna Ragnheiður Möller, fyrrum framkvæmdastjóri Fimleikasambandsins og stjórnarmaður, bættist í hóp heiðursfélaga UMFÍ og var sæmd heiðursfélagakrossi á sambandsþingi þess um helgina.

Anna starfaði sem framkvæmdastjóri FSÍ í hartnær 10 ár en hún lét af störfum í upphafi ársins 2007, hún sat einnig í stjórn sambandsins. Við erum afar stolt af Önnu fyrir framlag hennar til fimleika- og íþróttahreyfingarinnar í gegnum árin og að hún fái heiðursviðurkenningu frá UMFÍ fyrir störf sín.

Á heimasíðu UMFÍ er fjallað um afrek Önnu í gegnum árin:

Anna Ragnheiður Möller, hefur starfað innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar í áratugi. Hún hefur lengi búið í Garðabæ og var formaður fimleikadeildar Stjörnunnar um tíma. Hún var jafnframt formaður Stjörnunnar í þrjú ár, í stjórn knattspyrnudeildar og í ritnefnd félagsins. Þá var Anna í stjórn Fimleikasambandsins og framkvæmdastjóri þar í um tíu ár, í stjórn kvennahlaupsnefnd lengi. Anna var kjörin í stjórn UMFÍ árið 1997 og sat í henni jafnframt í tíu ár. Hún átti sæti í stjórn NSU og var þar formaður í áratug. Anna starfaði lengi hjá Evrópu unga fólksins og í framhaldi af því hjá Rannís.

Anna hefur alla tíð haft brennandi áhuga fyrir þátttöku barna og ungmenna í íþrótum og ætíð tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi innan hreyfingarinnar.

Anna Ragnheiður Möller hefur verið heiðruð af UMFÍ, UMSK, FSÍ og ÍSÍ eða hlotið flest alla þær viðurkenningar sem fyrirfinnast, nema heiðursfélagakross UMFÍ. Þann kross hlýtur hún í dag.

Við óskum Önnu Möller innilega til hamingju!