Landsliðverkefnum í áhaldafimleikum á árinu er lokið, því lauk með pompi og prakt á Top Gym í Belgíu.
Dagana 27. – 28. nóvember fór fram Top Gym í Charleroi, Belgíu. Stúlkurnar sem voru valdar í verkefnið til þess að keppa fyrir Íslandshönd voru þær Freyja Hannesdóttir og Ragnheiður Jenný Jóhannesdóttir.
Mótið er með óhefðbundnu sniði, þar sem tvær stúlkur frá hverju landi keppa sem lið fyrsta keppnisdag og í lok hans eru dregin saman tvö lönd sem mynda lið á öðrum keppnisdegi. Ísland var dregið með Rússlandi, sem var einstaklega skemmtilegt þar sem liðið frá Rússlandi var mjög sterkt í ár, Ekaterina Andreeva, sem var í þriðja sæti á Rússnenska meistaramótinu í unglingaflokki og Kristina Shapovalova voru meðal keppanda. Lið Íslands og Rússlands var hársbreidd frá verðlaunasæti eftir dag tvö en fjórða sætið var niðurstaðan eftir harða keppni. Freyja og Kristina kepptu á stökki, Freyja og Ekatarina kepptu á tvíslá, Ragnheiður Jenný og Ekatarina kepptu á slá og Ragnheiður Jenný og Kristina kepptu á gólfi á öðrum keppnisdegi.
Mót sem þessi eru einstök upplifun, enda var allt hið glæsilegasta og stúlkurnar okkar fara heim reynslunni ríkari, eftir mótið voru íslensku stúlkurnar uppteknar að gefa eiginhandaáritanir, enda voru þær frábærar í alla staði.
Fimleikasamband Íslands óskar Freyju og Ragnheiði Jenný innilega til hamingju með árangurinn.