Select Page

Síðastliðna helgi fór fram Top Gym í Belgíu, í áhaldafimleikum kvenna. Þær Sigurrós Ásta Þórisdóttir og Kolbrún Eva Hólmarsdóttir tóku þátt fyrir Íslands hönd. Top Gym en skemmtilegt vinamót sem er að miklu leiti frábrugðið öðrum alþjóðlegum mótum, fyrri daginn fór fram undanúrslitadagur og þann seinni var keppt í blandaðri liðakeppni og úrslitum á áhöldum. Dregið er í lið eftir fyrri daginn og drógust okkar konur með þeim frönsku og saman höfnuðu þær í 3. sætinu í liðakeppninni, 0.400 stigum frá 1. sætinu. Kolbrún keppti til úrslita á stökki, tvíslá, slá og gólfi og Sigurrós á tvíslá, slá og gólfi.

„Stemmningin var góð, stelpurnar voru svolítið stressaðar á slánni (fyrsta áhaldinu) en eftir hana þá byrjuðu þær almennilega að njóta“ – Agnes Suto, landsliðsþjálfari unglinga.

Mikil áhersla er á góða stemmningu og samheldni á mótinu, keppendum er t.d. gefinn kostur á að framkvæmda stökkið sitt 2x og betra stökkið telur – sem okkar konur nýttu sér reyndar ekki þar sem stökkin heppnuðust mjög vel í fyrstu tilraun. Einn keppandi framkvæmir sína keppnisæfingu í einu og öll augu á þeim einstaklingi, stúkan var troðfull af ungum fimleikakrökkum sem voru með stjörnur í augunum allan tímann. Íslensku stúlkurnar voru vinsælar og eyddu þær góðum hálftíma í eiginhandaáritanir eftir keppni. Mótið var í heild sinni jákvæð og hvetjandi upplifun fyrir keppendur.

Sæunn Viggósdóttir var með þeim í för og stóð sig frábærlega í dæmingum.

Þá er landsliðsverkefnum lokið í ár og óskar Fimleikasamband Íslands stúlkunum og þjálfurum innilega til hamingju með frábæran árangur.