Select Page

Þá er rúm vika liðin frá NM ævintýrinu í Espoo, Finnlandi og erum við strax byrjuð að telja niður í það næsta!

Kvennalið Stjörnunnar sem sótti sér silfur á mótinu, sýndu glæsileg tilþrif á mótinu og skinu þær skærast á gólfinu eins og svo oft áður, sigruðu þær gólfæfingarnar með 19.000 sem var jafnframt hæðsta gólfeinkun mótsins.

Sameiginlegt lið ÍA og Afturelingar, AFTURÍ náðu þeim sögulega árangri fyrir félögin sín að koma liði til keppni á NM í fyrsta skiptið og gáfu þau ekkert eftir og var það augljóst að mikil gleði og samheldni var í hópnum.

Stjörnustúlkurnar Ásta Kristinsdóttir og Tinna Sif Teitsdóttir voru valnar í úrvalslið mótsins (All Stars), Ásta á trampólíninu þar sem hún meðal annars framkvæmdi mjög erfitt þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu og Tinna á gólfinu, þar sem hún var algjörlega glæsileg. Ásta hefur nú verið valin í úrvalslið NM/EM fimm ár í röð, sem er magnaður árangur.

Gerplu stúlkurnar gerðu sér lítið fyrir og lentu öll stökkin sem þær framkvæmdu í keppni, bæði á dýnu og trampólíni. Ungir og efnilegir Stjörnustrákar sýndu flott tilþrif, þar sem margir voru að keppa á sínu fyrsta Norðurlandamóti. Blandað lið Stjörnunnar keppti í harðri keppni um titilinn en mistök á dýnu og trampólíni voru dýrkeypt að þessu sinni, liðið hefur lent í miklum óhöppum í aðdraganda keppninnar en létu það ekki á sig fá.

Fimleikasamband Íslands óskar enn og aftur keppendum og öðrum sem komu að mótinu, innilega til hamingju með árangurinn.

Úrslit mótsins.

Myndir frá mótinu.