Ísland átti fimm lið á Norðurlandamóti í hópfimleikum sem fór fram í Espoo, Finnlandi í dag. Liðin koma frá Stjörnunni, Gerplu og sameiginlegu liði ÍA og Aftureldingar.
Blönduðu liðin hófu keppni í morgun þar sem Stjarnan og ÍA/Afturelding kepptu fyrir Íslands hönd. Lið Stjörnunnar endaði í 6. sæti með 48.050 stig. Þeirra besta áhald var gólfið þar sem þau fengu 16.650 stig, mistök á dýnu og trampólíni voru dýrkeypt að þessu sinni. ÍA/Afturelding byrjaði á trampólíni þar sem stór mistök settu strik í reikninginn. Liðið kláraði svo dýnu og gólf með glæsibrag og endaði í 8.sæti með 45.300 stig.


Næst var komið að kvennaliðunum þar sem Stjarnan og Gerpla voru á meðal keppenda. Bæði lið áttu góðan dag og Stjarnan gerði sér lítið fyrir og endaði í 2.sæti með 54.050 stig, þar af hæðstu einkunn á gólfi sem gefin var í kvennakeppninni eða 19.000 stig. Smávægileg mistök voru gerð á trampólíninu en þær enduðu mótið með glæsilegum dýnustökkum eins og þeim einum er lagið. Lið Gerplu hafnaði í 6.sæti en stór mistök á dýnunni höfðu af þeim þó nokkur stig í dag, trampólínið gekk betur og gólfið enn betur.


Að lokum voru það karlaliðin sem kláruðu keppni í dag. Stjarnann átti þar ungt og upprennandi lið sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Strákarnir áttu flott mót og sýndu allar sínar bestu hliðar sem skilaði þeim 49.600 stigum.

Fimleikasambandið óskar keppendum, þjálfurum og félögum þeirra til hamingju með mótið.