Kvennalandslið Íslands í áhaldafimleikum keppti í liðakeppni og undanúrslitum á áhöldum á Norður Evrópumótinu í dag. Flottur árangur hjá liðinu og nokkur úrslit á áhöldum hjá okkar konum.
Liðið varð fyrir áfalli strax í upphitun á fyrsta áhaldi þegar Nanna Guðmundsdóttir reynslubolti liðsins meiddist á fæti á slánni sem varð til þess að hún keppti ekki með liðinu í dag. Stelpurnar tvíelfdust við þetta áfall og skiluðu góðum árangri á mótinu. Heildarstig liðsins endaði í 180.950 sem skilaði þeim 5. sæti í liðakeppninni. Liðið skipa þær Hekla Hákonardóttir, Katla María Geirsdóttir, Kristjana Ósk Ólafsdóttir, Nanna Guðmundóttir, Rakel Sara Pétursdóttir og Þóranna Sveinsdóttir. Þjálfarar liðsins að þessu sinni eru Auður Ólafsdóttir og Jimmy Ekstedt.
Efst íslensku keppendanna í dag varð Rakel Sara Pétursdóttir með 47.250 stig sem tryggði henni 3. sætið í fjölþrautinni, frábær árangur hjá þessari ungu og upprennandi fimleikakonu. Hún gerði sér einnig lítið fyrir og komst inn í úrslit á þremur áhöldum af fjórum.

Í úrslitum á áhöldum eigum við eftirfarandi keppendur:
Stökk: Rakel Sara Pétursdóttir
Tvíslá: Þóranna Sveinsdóttir
Slá: Rakel Sara Pétursdóttir (nr. 1 inn í úrslitin)
Gólf: Rakel Sara Pétursdóttir
Úrslit á áhöldum hefjast kl. 11:25 á morgun, sunnudag, með keppni á stökki og tvíslá hjá konum og gólfi, bogahesti og hringjum hjá körlum. Klukkan 13:55 er svo keppt á slá og tvíslá hjá konum og stökki, tvíslá og svifrá hjá körlum. Við eigum nóg af fólki í úrslitum á áhöldum og hvetjum fimleikaáhugafólk að fylgjast með í beinu streymi hér.
Beint streymi og úrslit mótsins.
Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum þeirra innilega til hamingju með árangurinn.