Select Page

Dagur Kári Ólafsson varð rétt í þessu fyrsti fimleikamaður Íslands til að keppa til fjölþrautaúrslita á HM í áhaldafimleikum og skrifar þar með nafn sitt í sögubækurnar.

Taugarnar gerðu aðeins vart við sig í byrjun þegar að hann greip ekki erfiða flugæfingu á fyrsta áhaldi, Dagur lét það ekki á sig fá, hoppaði aftur upp á svifránna, endurtók flugæfinguna og sýndi heiminum hvað hann kann. Hann hélt ótrauður áfram keppninni og framkvæmdi flottar gólfæfingar með fullkominni lendingu í lokin.

Bogahesturinn, sem er hans sterkasta grein leit ótrúlega vel út en í lok æfingunnar fipaðist hann í afstökkinu og datt af áhaldinu, endurtók hann afstökkið örugglega. Stökk og hringi framkvæmdi hann af miklu öryggi og toppaði sig svo algjörlega á sínu síðasta áhaldi, þegar hann sýndi glæsilega tvísláaræfingu sem hann fékk 13.633 stig fyrir. Þar bætti hann sig um 1.200 stig frá undanúrslitunum, þar sem hann hlaut 12.433 stig.

Lokaniðurstaðan var 73.332 stig og 24. sæti á HM í áhaldafimleikum. Ísland má vera stolt af þessum frábæra fimleikamanni, sem hefur unnið hart að því að ná þessum tímamótaárangri.

Róbert Kristmannsson, landsliðsþjálfari, var honum sem klettur í dag, sem og sjúkraþjálfarinn okkar, Stefán Hafþór Stefánsson. Þökkum við þeim fyrir mikilvægt og vel unnið starf. Að auki viljum við þakka þeim Daða Snæ Pálssyni og Hlín Bjarnadóttur fyrir frábær dómarastörf hér á HM.

Fimleikasamband Íslands óskar Degi Kára, þjálfurum hans og félaginu hans, Gerplu, innilega til hamingju með frábæran árangur á HM.

Hér er úrslitalinkur.

Hér má nálgast myndir frá æfingum og keppni.