Select Page

Íslensku keppendurnir hafa lokið keppni á feyki sterku heimsbikarmóti hér í París, 52 lönd sendu sitt sterkasta fimleikafólk til keppni enda flestir í fullum undirbúningi fyrir HM. Ólympíuhöllin stóð fyrir sínu í dag og stemmningin frábær, Frakkarnir kunna svo sannarlega að halda fimleikamót og setið í nánast öllum 12.000 sætunum.

Þetta heimsbikarmót er frábrugðið öðrum heimsbikarmótum að því leiti að öll undankeppnin fer fram á aðeins einum degi, það þýðir langur og strangur dagur fyrir keppendur. Ágúst Ingi Davíðsson opnaði daginn fyrir íslenska fimleikafólkið, á hringjum, þar sem hann framkvæmdi stórglæsilega hringjaseríu. Þá næst tóku konurnar við en þær Lilja Katrín Gunnarsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir mættu vel stemmdar og framkvæmdu öruggar tvísláaræfingar.

Atli Snær Valgeirsson, sem var að keppa á sínu fyrsta heimsbikarmóti, framkvæmdi eina bestu gólfæfingu sem hann hefur framkvæmt á alþjóðlegu móti og var hann aðeins hársbreidd frá úrslitunum, en skilaði gólfæfingin honum 13.033 stig og 12. sætinu. Á bogahestinum vafðist afstökkið fyrir honum sem kom niður á lokaeinkun hans. Dagur Kári Ólafsson, framkvæmdi mjög erfiða bogahestseríu stórkostlega en rétt undir lokin rann hann á hestinum og þurfti hann að sætta sig við 27. sætið að þessu sinni. Dagur keppti einnig á tvíslá og svifrá.

Ágúst Ingi var ekki búinn, heldur sýndi hann flotta svifráaræfingu sem skilaði honum 11. 922 stig, en að lokum eftir langan og strangan dag þá fór tvísláin ekki alveg eins og planað og tvö föll niðurstaðan. Hildur Maja Guðmundsdóttir, sem vann einmitt silfur á heimsbikarmóti í sumar, keppti aðeins á slá í dag, hún framkvæmdi flotta æfingu, en tvö föll settu stórt strik í reikninginn. Thelma, sem er þekkt fyrir frábæra listfengi tryllti höllina með frábærum gólfæfingum og erfiðri sláaræfingu. Lilja Katrín, lokaði svo deginum kvennamegin með frumsýningu á nýrri gólfæfingu.

Hér má finna úrslit.

Hér verða birtar myndir.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum innilega til hamingju með flottan dag hér í París, sem og góðs gengis á lokametrunum í HM undirbúningi.