Select Page

Í dag fór fram fyrri úrslitadagur á Íslandsmóti í áhaldafimleikum. Keppt var í fjölþraut og um sæti í úrslitum á einstökum áhöldum sem fara fram á morgun. Keppnin var æsispennandi og mjótt á munum, en aðeins 0,350 stig skyldu að efstu þrjá keppendur í karlaflokki.

Í kvennaflokki sigraði Thelma Aðalsteinsdóttir úr Gerplu fjórða árið í röð með 49,800 stig. Thelma átti frábæran dag og sýndi stórkostlegar æfingar á öllum áhöldum, þar á meðal frumsýndi hún nýtt afstökk á jafnvægisslá. Í öðru sæti varð Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Gerplu, með 49,000 stig, og í þriðja sæti Kristjana Ósk Ólafsdóttir, einnig úr Gerplu, með 46,150 stig. Báðar sýndu þær glæsilegar æfingar.

Karlakeppnin var mjög jöfn þar sem Valgarð Reinhardsson, Atli Snær Valgeirsson og Dagur Kári Ólafsson stóðu nánast hnífjafnir eftir fimm áhöld. Úrslitin réðust því á svifrá, þar sem Atli tryggði sér sigur með stórkostlegri æfingu og hlaut hann 72,750 stig. Valgarð varð annar eftir drengilega keppni, en hann hefur sigrað fjölþraut átta sinnum frá árinu 2015. Dagur Kári hafnaði í þriðja sæti með 72,400 stig. Allir keppa þeir fyrir Gerplu.

Í unglingaflokki voru það Rakel Sara Pétursdóttir og Kári Pálmason, bæði úr Gerplu, sem sigruðu.

Á morgun kemur í ljós hverjir verða Íslandsmeistarar á einstökum áhöldum, en fimm efstu keppendur frá deginum í dag keppa til úrslita. Útsending hefst í beinni á RÚV klukkan 15:00.

👉Úrslitin má nálgast hér.
📸Myndir verða birtar hér.

Fimleikasamband Íslands óskar öllum keppendum, félögum og þjálfurum innilega til hamingju með glæsilegan árangur í dag.