Select Page

Í dag fór fram liða- og fjölþrautarkeppni á Norður – Evrópumótinu í Írlandi, en keppnin var einnig undankeppni fyrir úrslit á einstökum áhöldum sem fara fram á morgun.

Thelma Aðalsteinsdóttir vann silfurverðlaun í fjölþraut og kvennaliðið okkar í 3. sæti!!

Karlaliðið okkar mætti til leiks í fyrsta hluta mótsins en árangur liðsins undanfarin ár hefur verið eftirtektarverður, þar sem þeir unnu til bronsverðlauna 2022 og voru í 6. sæti 2023. Í ár erum við með nokkuð nýtt og ungt lið þar sem 3 reynsluboltar eru að vinna sig upp úr meiðslum.

Liðið hóf keppni á bogahesti  og mættu vel stemmdir til leiks, grátleg föll hjá Degi Kára komu í veg fyrir að hann ynni sér sæti í úrslitum en það er nokkuð ljóst miðað við einkunnina sem hann hlaut þrátt fyrir föllin að hann er að framkvæma æfingar sem eiga heima í úrslitum á sterkustu mótum heims. Frábærar æfingar liðsins á hringjum gáfu góð fyrirheit um framhaldið en þar mætti Jón Sigurður og gjörsamlega sló í gegn með seríu sem tryggði hann örugglega inn í úrslit. Ágúst Ingi átti líka frábæra seríu og var grátlega nálægt úrslitum.

Liðið stóð sig vel á stökki og kláraði allt sitt með glæsibrag. Þá var komið að tvíslánni, sem var einmitt besta áhald íslenska liðsins 2023 þegar bæði Valgarð og Dagur Kári unnu til verðlauna og var aftur besta áhald liðsins í ár. Dagur Kári framkvæmdi algjörlega framúrskarandi æfingar og tryggði sér öruggt sæti í úrslitum með framkvæmdareinkunn upp á 9,0. Ágúst Ingi var ekki langt á eftir Degi og framkvæmdi bestu seríu sem við höfum séð lengi og einnig í úrslitum á morgun. Svifráin reyndist liðinu vel og rúlluðu þeir í gegnum sínar æfingar eins og við var að búast fyrir utan smá hnökra hjá Degi Kára. Ágúst Ingi var með hæstu einkunnina og tryggði sér úrslitasæti með glæsibrag. Þá var það gólfið og Ágúst Ingi framkvæmdi frábærar æfingar með mjög góðum lendingum í öllum stökkum en náði þvímiður ekki inn í úrslit. Jón Sigurður kláraði fjölþraut með miklum stæl og sýndi frumlegar og góðar æfingar á gólfinu.

Íslenska liðið endaði í 8. sæti og voru margir bjartir punktar eftir daginn. Valdimar og Lúkas Ari voru að keppa á sýnu fyrsta Norður-Evrópumóti og stóðu sig alveg frábærlega, en þetta er einnig fyrsta mótið hans Lúkasar í fullorðinsflokki. Ágúst Ingi var hæstur íslensku keppendanna með frábær stig upp á 76.550 sem er hæsta fjölþrautareinkunn hans og ekki amarlegt að ná slíkum árangri á alþjóðlegum vettvangi. Atli Snær átti frábæran dag og var næst hæstur með 73.850 stig og bætir árangur sinn frá NM í Osló frá því í vor. Jón Sigurður, okkar mesti reynslubolti var frábær fyrir Íslenska liðið og sótti dýrmæt stig.

Liðið skipa:

Atli Snær Valgeirsson

Ágúst Ingi Davíðsson

Dagur Kári Ólafsson

Jón Sigurður Gunnarsson

Lúkas Ari Ragnarsson

Valdimar Matthíasson

Þjálfarar: Ólafur Garðar Gunnarsson og Viktor Kristmannsson

Dómarar: Davíð Ingason og Sigurður Hrafn Pétursson

Kvennaliðið keppti í seinni hluta mótsins og var skipað okkar bestu konum frá EM í vor og þremur ungum keppendum sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppni á alþjóðlegum vettvangi í fullorðinsflokki. Tvær af okkar reyndustu keppendum eru að jafna sig á meiðslum og liðið því bæði skipað reynslu og nýrri kynslóð sem verður spennandi að fylgjast með þróast í framtíðinni. Liðið átti frábært mót í fyrra, þegar það var hársbreidd frá bronsverðlaunum og Thelma varð Norður-Evrópumeistari á tvíslá.    

Liðið hóf keppni á jafnvægisslá og hin unga og bráðefnilega Rakel Sara reið á vaðið með frábærri æfingu. Thelma átti svo alveg hreint ótrúlega flotta æfingu og gerði sér lítið fyrir og fékk 13.000 í einkunn sem tryggði henni öruggt úrslitasæti. Hildur Maja var ekki langt frá stöllu sinni með sinni framkvæmd og er fyrsti varamaður, 0,1 frá úrslitum með frábærri æfingu sem er hlaðinn erfiðleika. Á gólfinu tryggði Thelma sig örugglega inn í úrslít með algjörlega frábærri framkvæmd, grátlegt fall Hildar Maju kostaði hana úrslitasæti en ungu keppendurnir risu upp og stóðu sig með mikilli prýði. Þær stóðu sig allar frábærlega á stökki og gerðu nákvæmlega það sem þær geta, Thelma var eini íslenski keppandinn sem gerði tvö stökk sem hún negldi og stökk sig örugglega inn í úrslitin. Þá var komið að tvíslánni og spennustigið hækkaði aðeins þegar Thelma freistaði þess að komast í úrslit til að getað varið titilinn á áhaldinu frá árinu áður. Þrátt fyrir fall í afstökki í annars algjörlega frábærri æfingu komst hún í úrslit. Hildur Maja gerði bestu æfingu sem hún hefur gert á tvíslá og tryggði sér örugglega sæti í úrslitum. Lilja Katrín gerði einnig alveg frábæra æfingu á tvíslánni og er varamaður inn í úrslitin.

Þóranna, Lovísa og Rakel Sara voru allar að keppa á sínu fyrsta Norður-Evrópumóti og á sínu fyrsta alþjóðlega móti í fullorðinsflokki. Þær stóðu sig allar alveg frábærlega og sóttu sér dýrmæta reynslu sem mun vafalaust styrkja þær til framtíðar. Thelma vann til silfurverðlauna eins og áður sagði með 50.050 stig, alveg grátlega nálægt gullinu en hún keppir í öllum úrslitunum fjórum á morgun. Hildur Maja var með næsta besta árangur íslensku kvennanna með 47.700 stig í 9. sæti og Lilja Katrín varð þriðja af þeim í fjölþrautinni með 45.900.

Liðið skipa:

Hildur Maja Guðmundsdóttir

Lilja Katrín Gunnarsdóttir

Lovísa Anna Jóhannsdóttir

Rakel Sara Pétursdóttir

Thelma Aðalsteinsdóttir

Þóranna Sveinsdóttir

Þjálfarar: Andrea Kovats-Fellner og Þorgeir Ívarsson

Dómarar: Ragna Þyrí Ragnarsdóttir og Sandra Árnadóttir

Agnes Suto var fararstjóri og tryggði okku öllum frábært myndefni.

Einkunnir frá mótinu má sjá hér: https://www.acro-companion.com/competition/Northern%20European%20Championships%202024%20MAG/ranking

Við óskum keppendum og öllum sem að þeim koma innilega til hamingju með frábært mót, um leið og við þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg við að styðja okkar fólk!

#ÁframÍsland

#FimleikarFyrirAlla