Valgarð Reinharðsson, ríkjandi Íslandsmeistari í fimleikum, hóf keppni fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í Belgíu í dag. HM í fimleikum hófst í dag en stigahæstu keppendur mótsins tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári.
Valgarð byrjaði mótið af krafti með æfingum á hringjum sem skiluðu honum 12,8 stigum. Hann fylgdi því eftir með öflugu stökki sem skilaði honum 14.033 stigum og síðan með æfingu á tvíslá sem skilaði 13,3 stigum.
Þegar þrjú áhöld af sex voru búin var ÓL draumurinn á lífi og allt stefndi í ótrúlegan dag þegar smávægileg mistök á svifrá urðu Valgarði að falli er hann greip ekki flugæfingu sína svifrá. Valgarð var með neglurnar á ránni en það dugði ekki til og svo fór sem fór.
Hann lauk mótinu hins vegar af sæmd með góðri gólfæfingu og flottum bogahesti. Valgarð lauk keppni með 75,765 stigum og endar í 36. sæti á HM, eins og staðan er núna, enn eru þrír hlutar eftir.
Dagur óvænt inn á HM
Íslensku keppendurnir fengu óvæntan liðsstuðning á síðustu stundu í fyrradag þegar Dagur Kári Ólafsson, einn efnilegasti fimleikamaður landsins, komst inn á Heimsmeistaramótið eftir að hafa verið varamaður í marga mánuði.
Dagur var örfáum stigum frá því að ná lágmörkum HM þegar hann keppti á Evrópumeistaramótinu í apríl en endaði sem fyrsti varamaður.
Dagur var fastur í þeirri biðstöðu alveg þangað til í fyrradag er símtalið kom. Dagur hefur æft síðustu vikur og mánuði líkt og hann væri að fara keppa og mætir því tilbúinn til leiks á morgun en keppni hefst klukkan 8:00 að íslenskum tíma.
Íslensku landsliðsstelpurnar, Thelma Aðalsteinsdóttir og Margrét Lea Kristinsdóttir, keppa síðan fyrir Íslands hönd á mánudaginn.
Fimleikasamband Íslands óskar Valgarði, þjálfurum og Gerplu innilega til hamingju með árangurinn á HM 2023.