Select Page

Nú um helgina fóru Íslandsleikar Special Olympics í áhaldafimleikum fram samhliða Þrepamóti 3 sem haldið var í Björk. Metfjöldi var skráður til leiks þar sem yngri iðkendur tóku einnig þátt í fyrsta skipti.

Alls kepptu 18 einstaklingar á leikunum í ár, keppendur komu frá Íþróttafélaginu Gerplu og frá Fimleikadeild Keflavíkur, en hingað til hefur fjöldinn verið töluvert lægri. Það er mikil ánægja að sjá greinina stækka hér á landi og sjá að fleiri félög eru að taka þátt og vonumst við til að sjá enn fleiri keppendur á komandi árum og frá fleiri félögum.

Líkt og kom fram kepptu yngri iðkendur í fyrsta skipti á mótinu og fengu þau verðlaun fyrir sitt besta áhald. Stúlkurnar kepptu í Level 1 og drengirnir í Level B og C, en Special Olympics er með sitt eigið þrepakerfi.

Stúlkurnar í Level 1:

  • Katrín Ling Yu Þórbergsdóttir, Gerpla
  • Bylgja Björt Axelsdóttir, Gerpla
  • Katrín Lilja Harðardóttir, Gerpla
  • Birna Rún Heiðarsdóttir, Keflavík
  • Særún Birgisdóttir, Gerpla

Drengirnir í Level B og C:

  • Benedikt Ágústsson, Gerpla
  • Eyjólfur Gunnlaugsson, Gerpla
  • Viktor Skúli Ólafsson, Gerpla

Þau Hringur Úlfarsson og Arna Ýr Jónsdóttir, úr Gerplu, kepptu í Almennu þrepi og fengu verðlaun fyrir æfingar sínar á jafnvægisslá.

Yngri keppendur á leikunum ásamt keppendum í Almennu þrepi. Á myndirnar vantar hann Viktor Skúla.

Jóhann Fannar Kristjánsson, úr Gerplu, er margreyndur keppandi hér heima og á alþjóðavísu og keppti hann í Level 1 um helgina. Hann varð Íslandsmeistari í sínu þrepi og framkvæmdi æfingar sínar með glæsibrag.

Jóhann Fannar Kristjánsson.

Það var ansi hörð keppni í karlaflokki enda þaulreyndir keppendur að þreyta keppni. Í Level 2 kepptu þeir Birkir Eiðsson, Davíð Þór Torfason og Unnar Ingi Ingólfsson, allir úr Gerplu. Eftir frábærar æfingar hjá þeim öllum stóð Davíð Þór uppi sem Íslandsmeistari í því þrepi með 104.200 stig, í öðru sæti var hann Birkir með 102.600 stig og Unnar Ingi í því þriðja með 98.400 stig.

F.v. Unnar Ingi Ingólfsson, Davíð Torfason og Birkir Eiðsson.

Í Level 3 kepptu þeir Magnús Orri Arnarsson, Sigmundur Kári Kristjánsson og Tómas Örn Rúnarsson, allir úr Gerplu. Í Level 3 er keppt í frjálsum æfingum og urðum við því vitni af ýmsum útgáfum af skemmtilegum æfingum félaganna. Allir stóðu þeir sig með glæsibrag og myndaðist mikil stemmning í húsinu er þeir félagar framkvæmdu erfiðar æfingar á gólfi. Eftir mjög harða keppni endurheimti Magnús Orri Íslandsmeistaratitilinn, frá árinu 2021, en hann skoraði 94.050 stig um helgina. Tómas Örn var svo í öðru sæti með 92.850 stig og Íslandsmeistarinn frá árinu 2022, hann Sigmundur Kári í því þriðja með 91.450 stig.

F.v. Sigmundur Kári Kristjánsson, Magnús Orri Arnarson (Íslandsmeistari í karlaflokki) og Tómas Örn Rúnarsson.

Elva Björg Gunnarsdóttir, aldursforseti leikanna og reyndasti keppandinn í ár, keppti í Level 2. Því miður lagði enginn annar iðkandi í keppni við hana Elvu í ár og stóð hún því uppi sem Íslandsmeistari kvenna á leikunum. Elva stóð sig engu að síður með stakri prýði og átti hún marga stuðningsmenn í stúkunni sem fögnuðu ákaft þegar hún lauk keppni á hverju áhaldi. Elva kláraði mótið með 74.700 stig.

Elva Björg Gunnarsdóttir (Íslandsmeistari í kvennflokki).

Nú í sumar fara Alþjóðaleikar Special Olympics fram í Berlín. Leikarnir fara fram 17. – 25. júní og sendir Ísland fjölda keppenda í hinum ýmsu greinum, þar á meðal í áhaldafimleikum. Íþróttasamband fatlaðra hefur tilkynnt keppendur og þjálfara sem munu taka þátt á leikunum í ár en þeir eru eftirfarandi:

  • Elva Björg Gunnarsdóttir, Level 2
  • Davíð Þór Torfason, Level 2
  • Tómas Ingi Rúnarsson, Level 3

Með þeim í för fara landsliðsþjálfarar hópsins þær Eva Hrund Gunnarsdóttir og Lilja Árnadóttir, en þær hafa þjálfað hópinn í Gerplu til fjölda ára.

Íslandsleikarnir voru því góður undirbúningur fyrir því sem koma skal í sumar hjá þessum þremur einstaklingum. Fimleikasambandið óskar landsliðinu góðs gengis á mótinu og hlakkar til að fylgjast með þeim.

Okkur langar að þakka Fimleikafélaginu Björk fyrir mótahaldið í ár sem og dómurum fyrir sín störf. Þökkum við einnig þeim Kristínu Lindu Kristinsdóttur, úr stjórn Íþróttasambands fatlaðra og Sigurbjörgu Fjölnisdóttur, formanni FSÍ fyrir að verða viðstaddar mótið í ár og fyrir að veita verðlaun á leikunum. Við óskum öllum keppendum leikanna til hamingju með sinn árangur!

Myndasíða FSÍ

Myndir frá Íþróttafélaginu Gerplu

#fimleikarfyriralla

Kristín Linda Kristinsdóttir og Sigurbjörg Fjölnisdóttir. Með þeim á myndinni eru stúlkur úr Björk sem aðstoðuðu þær við verðlaunaafhendingu.

Íslandsmeistararnir þau Elva Björg og Magnús Orri.