Ískenska kvennalandsliðið hefur lokið keppni á Evrópumóti í Antalya, Tyrklandi. Heildareinkunn liðsins var 140.363 stig.
Þær Agnes Suto, Hildur Maja Guðmundsdóttir, Margret Lea Kristinsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir skipuðu landslið Íslands á mótinu.
Íslensku stelpurnar byrjuðu mótið á slá sem var krefjandi en gekk og mættu þær í gólfæfingar með miklu öryggi, þar framkvæmdu þær glæsilegar gólfæfingar þar sem að listfengin geislaði af þeim. Stelpurnar framkvæmdu allar kraftmikil stökk sem skiluðu m.a. Hildi Mæju og Agnesi Suto yfir 13.000 stig, sem er glæsilegur árangur.
Thelma Aðalsteinsdóttir, nýlega krýndur íslandsmeistari var efst íslenskra kvenna á mótinu í dag með 47.265 stig. Margrét Lea var önnur með 45.332 og rétt á eftir henni Hildur Maja með 45.133 stig.
Myndir frá keppnisdeginum má sjá hér. Einnig má finna myndbönd og skemmtilegar myndir í story á Instagram FSÍ.
Thelma og Margrét Lea á HM! – óstaðfest
Við bíðum spennt eftir því að sjá niðurstöður kvöldsins sem mun meðal annars skera úr því hvort að einhverjum af íslensku stelpunum hafi tekist að vinna sér inn fjölþrautarsæti á HM. Miðað við fyrstu útreikninga þá lítur allt út fyrir það að þær Thelma og Margrét Lea hafi tryggt sér sæti á HM í Belgíu! Við bíðum spennt eftir staðfestingu frá Alþjóðafimleikasambandinu (FIG).
Fimleikasambandið óskar kvennalandsliðinu, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með mótið!