Bikarmót í áhaldafimleikum fer fram í Ármanni, laugardaginn 18. febrúar. Mótið hefst klukkan 13:40 og fer miðasala fram við innganginn. Á Bikarmóti er keppt í liðakeppni í frjálsum æfingum karla og kvenna, þar sem að hámarki 5 keppendur eru í hverju liði og telja þrjár hæstu einkunnir á hverju áhaldi til stiga fyrir liðið.
Sjö kvennalið
Sjö kvennalið eru skráð til keppni og munu þau öll takast á um Bikarmeistaratitilinn í ár. Liðin eru: Björk, Gerpla 1, Gerpla A, Grótta, Ármann, Fylkir og Stjarnan. Að auki eru sex stúlkur skráðar sem gestir, alls eru 45 skráðar til keppni í kvennafokki, það gefur augaleið að hart verður barist um titilinn í ár.
Lið Gerplu og Björk hafa skipt með sér Bikarmeistaratitilinum síðan árið 2017, Gerpla bar sigur úr býtum í fyrra og fór heim með titilinn, Lið Gerplu er því ríkjandi Bikarmeistari í áhaldafimleikum kvenna.
Þrjú karlalið
Þrjú karlalið munu keppast um titilinn að þessu sinni, þau eru; Björk, Gerpla 1 og Gerpla A. Alls eru 21 keppendur skráðir til keppni í karlaflokki.
Gerplumenn hafa landað titlinum frá árinu 2017 en Ármenningar lönduðu titlinum árin 2014 og 2016 (Gerpla árið 2015). Ármenningar rufu 17 ára sigurgöngu Gerplu árið 2014.