Glæsilegri Golden age hátíð lauk með gala sýningu í gærkvöldi þar sem loka atriði sýningarinnar var frá íslenska hópnum Sóley´s boys. Hópurinn hlaut mikið lófaklapp fyrir enda frábært og vel framkvæmt atriði. Fimm hópar frá Íslandi hafa dvalið á eyjunni Madeira og sýnt listir sínar á hátíðinni auk þess að sækja vinnubúðir í hinum ýmsu íþróttum.
Allir hóparnir eru sammála um að vel hafi tekist til og hlakka til næstu Golden age hátíðar sem fer fram í Burgas í Búlgaríu 22.-27. september 2024.
Hlíf Þorgeirsdóttir er formaður nefndar um fimleika fyrir alla hjá evrópska fimleikasambandinu. Hlíf var hæst ánægð í lok hátíðar í gær og sagði að allt hefði tekist vel í kringum hátíðina en upp úr standi atriðin frá öllum hópunum.
Það er svo mikil gleði og hamingja í hverju andliti að maður getur ekki annað en hrifist með. Við í nefndinni viljum þakka öllum þátttakendum og auðvitað þakka ég íslensku hópunum sérstaklega, æðislegt að fá svona marga frá Íslandi á hátíðina og vonandi verða enn fleiri með næst.
Fimleikasambandið þakkar öllum þátttakendunum frá Íslandi fyrir skemmtilega Golden age viku og óskar þeim til hamingju með frábær atriði og flotta sviðsframkomu.