Norðurlandamóti í áhaldafimleikum fullorðinna og unglinga lauk í dag. Í dag var keppt í úrslitum á einstökum áhöldum og átti Ísland samtals tíu keppendur í úrslitum, þrjá í unglingaflokki og sjö í fullorðinsflokki.
Thelma Aðalsteinsdóttir kom, sá og sigraði í dag, hún framkvæmdi frábæra sláarseríu sem tryggði henni Norðurlandameistaratitilinn á slá.
Valgarð Reinhardsson átti einnig frábæran dag, en hann keppti á þremur áhöldum: gólfi, hringjum og stökki. Valgarð gerði mjög flottar gólfæfingar og tvö frábær stökk en hann hafnaði í 2. sæti á þessum tveimur áhöldum.
Hildur Maja Guðmundsdóttir keppti ásamt Agnesi Suto á gólfi. Hildur Maja sýndi svo sannarlega hvað í henni býr og framkvæmdi glæsilega gólfæfingu með miklu listfengi. Keppnin var mjög hörð á gólfinu þar sem eingöngu munaði 0,05 stigum á milli Hildar og Alva frá Svíþjóð sem sótti sér titilinn, Hildur fer þó sátt heim með silfur um hálsinn.
Thelma var ekki sú eina sem framkvæmdi frábæra sláarseríu, það gerði einnig Guðrún Edda Min Harðardóttir sem skilaði henni 3. sætinu. Keppnin var það hörð á slánni að eingöngu munaði 0,2 stigum á milli Thelmu og Guðrúnar.
Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir, sem keppti í unglingaflokki, keppti á tveimur áhöldum í dag, á stökki og á gólfi. Stökkið hennar Ragnheiðar var framkvæmt með glæsibrag og skilaði það henni þriðja sætinu.
Íslenska fimleikafólkið vann sér því inn sex medalíur í dag.
Íslensku keppendurnir stóðu sig vel á mótinu og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn. Nóg er framundan hjá landsliðshópunum, en á dagskrá er bæði EYOF (unglingalandsliðin) í lok júlí og Evrópumót í byrjun ágúst.
Myndir frá mótinu munu birtast hér á myndasíðu FSÍ.
Fimleikasambandið vill þakka Gerplu, dómurum og öllum þeim sjálfboðaliðum sem koma hafa að mótinu með einum eða öðrum hætti, fyrir stórglæsilegt og vel skipulagt mót!