Fimleikaþing sambandsins fór fram í Háskólanum í Reykjavík í dag, laugardaginn 23. apríl. Hefbundin fundarstörf fóru fram og var það Valdimar Leó Friðriksson sem var kjörin þingforseti, þingritarar voru Fjóla Þrastardóttir og Helga Svana Ólafsdóttir, kjörbréfanefnd skipuðu Olga Bjarnadóttir, Íris Svavarsdóttir og Jórunn Dóra Sigurjónsdóttir. Kjörbréf bárust frá 12 félögum og fóru félögin með 34 atkvæði.
Þingstörf gengu vel fyrir sig, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, fór yfir skýrslu stjórnar og Eva Hrund Gunnarsdóttir, fjármálastjóri, fór yfir áritaða reikninga sambandsins. Skýrsla stjórnar og áritaðir reikningar voru samþykktir samhljóma án athugasemda.
Ávarp framkvæmdastjóra ÍSÍ
Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, var gestur þingsins og ávarpaði þingheim og fór yfir þau fjölmörgu mál sem íþróttahreyfingin stendur frammi fyrir að leysa á næstunni. Hann hrósaði stjórn fyrir greinargóða og upplýsandi skýrslu og gagnsæa reikninga.
Ávarp gesta
Kristján Erlendsson, fyrrum formaður FSÍ, tók til máls og sagði hann þá vinnu sem unnin hefur verið á árum áður vel að skila sér vel inn í ört stækkandi hreyfingu, sem við getum öll verið stolt af.
Now is a gift from the past that’s why we call it the present.
Olga Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Gerplu, tók einnig til máls og minnti á mikilvægi sjálfboðaliða í starfinu. Hún kom einnig inn á mikilvægi þess að aðildarfélögin mæti á þing, því að það er greinilegt að sambandið er að hlusta á félögin og þingið er vettvangur félaganna til að láta rödd sína heyrast og koma sínum áherslum á framfæri.
Fríða Rún Þórðardóttir, framkvæmdastjóri fimleikadeildar ÍR, tók að lokum til máls og fjallaði um það hversu holt það er fyrir okkur að víkka sjóndeildarhringinn og kynna okkur aðra íþrótt en þá sem maður hefur starfað í sjálfur. Það gerir okkur stærri og við getum lært svo mikið hvert af öðru.
Starfsnefndir þingsins
Fjórar starfsnefndir voru starfræktar á þinginu; fjárhagsnefnd, mótanefnd, laganefnd og afreksnefnd. Nefndarstarfið gekk vel fyrir sig og kláruðu allar nefndir störf sín á undan áætlun, en miklar og góðar umræður fóru fram sem munu skila sér í faglegu og góðu starfi á næstu árum.
Sjórn Fimleikasambandsins
Á þinginu var kosið í þrjár stöður stjórnarmanna en aðrir í stjórn eru:
Kristinn Arason (formaður), Axel Þór Eysteinsson, Halldóra Sigríður Guðvarðardóttir, Magnús Heimir Jónasson.
Þeir sem voru kosnir í stjórn í ár voru; Stefanía Reynisdóttir, Sigurbjörg Fjölnisdóttir og Þór Ólafsson.
Í varastjórn voru kosnar: Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir og Marta Sigurjónsdóttir.
Fimleikasambandið þakkar öllum fulltrúum félaga fyrir komuna á þingið sem og þingforseta og þingriturum fyrir sín störf. Myndir frá þinginu má finna á myndasíðu sambandsins.