Select Page

Eftir harða keppni í kvennaflokki var það Thelma Aðalsteinsdóttir sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum þriðja árið í röð. Hjá körlunum var það Valgarð Reinhardsson sem lyfti Íslandsmeistarabikarnum í áttunda sinn.

Íslandsmótið í áhaldafimleikum fer fram í Laugardalnum um helgina, í umsjá Fimleikadeildar Ármanns. Fjölþrautarkeppni mótsins fór fram í dag og var hart barist um titlana bæði hjá konum og körlum.

Valgarð Reinhardsson vann öruggan sigur og varð Íslandsmeistari í áhaldafimleikum karla áttunda árið í röð. Hann var hæðstur á fjórum áhöldum af sex í dag og kláraði mótið með 77.450 stig, 4.900 stigum á undan Martin Bjarna Guðmundssyni sem fékk 72.550. Í þriðja sæti varð Dagur Kári Ólafsson með 71.400 stig. Þeir koma allir úr Íþróttafélaginu Gerplu.

Hjá konunum var mjótt á mununum en Thelma Aðalsteinsdóttir úr Gerplu leiddi keppnina fyrir síðasta áhald. Thelma stóð uppi sem sigurvegari eftir sannfærandi frammistöðu og varð þar með Íslandsmeistari kvenna þriðja árið í röð. Thelma fékk í heildina 49.364 stig, í öðru sæti varð Hildur Maja Guðmundsdóttir einnig úr Gerplu með 48.831 stig, 0.533 á eftir Thelmu og í því þriðja Margrét Lea Kristinsdóttir úr Stjörnunni með 47.432 stig.

Hér má sjá öll úrslit dagsins.

Myndir frá Íslandsmóti.

Íslandsmeistarar unglinga

Keppt var í unglingaflokki í morgun þar sem Lúkas Ari Ragnarsson sigraði örugglega í drengjaflokki með 68.850 stig, 1.1 stigi á undan Sóloni Sverrissyni úr KA. Sigurrós Ásta Þórisdóttir úr Stjörnunni sigraði í stúlknaflokki með 45.033 stig, 0.5 stigum á undan Kristjönu Ósk Ólafsdóttur úr Gerplu.

Unglingaflokkur kvenna

1. sæti: Sigurrós Ásta Þórisdóttir, Stjörnunni – 45.033 stig

2. sæti: Kristjana Ósk Ólafsdóttir, Gerplu – 44.532 stig

3. sæti: Auður Anna Þorbjarnardóttir, Gróttu – 43.966 stig

Unglingaflokkur karla

1. sæti: Lúkas Ari Ragnarsson, Björk – 68.850 stig

2. sæti: Sólon Sverrisson, KA – 67.750 stig

3. sæti: Kári Pálmason, Gerplu – 67.650 stig

Úrslit á áhöldum

Á morgun fara fram úrslit á einstökum áhöldum, þar sem fimm stigahæstu keppendur á hverju áhaldi berjast um Íslandsmeistaratitilinn á áhaldinu. Keppnin hefst kl. 15:00 og hvetjum við alla til að mæta í Ármann og sýna okkar fólki stuðning. Mótið er einnig sýnt í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsendingin kl. 15:00.

Fimleikasamband Íslands óskar keppendum, þjálfurum og félögum innilega til hamingju með daginn