Select Page

Nú á dögunum fer fram Evrópumót í áhaldafimleikum í Mersin í Tyrklandi. Fulltrúar Íslands á mótinu eru þeir Valgarð Reinhardsson og Jónas Ingi Þórisson. Valgarð keppir í fullorðinsflokki og Jónas Ingi í unglingaflokki og hefst keppnin á morgun, 9. desember. Covid faraldurinn hefur að sjálfsögðu sett svip sinn á mótið eins og allt annað þessa dagana, miklar sóttvarnaraðgerðir einkenna umgjörð mótsins og fer það fram án áhorfenda.

Íslenski hópurinn kom á mótsstað laugardaginn 5. desember og hafa fimleikamennirnir verið að leggja leggja lokahönd á undirbúning sinn fyrir mótið síðan þá. Í gær, 7. desember var podium æfing hjá Jónasi Inga, en hann keppir í fjölþraut á mótinu og keppir hann í undankeppninni á morgun, þann 9. desember. Í dag fór svo fram podium æfing hjá Valgarði, en hann keppir á gólfi, stökki og svifrá á mótinu og er undankeppnin hjá honum á fimmtudaginn, þann 10. desember. Úrslit mótsins fara svo fram dagana 11. – 13. desember.

Hægt er að horfa á beint streymi frá mótinu hér og úrslitin koma inn hér.

Jónas Ingi hefur keppni á morgun, 9. desember kl. 15:00 á íslenskum tíma.

Valgarð hefur keppni á fimmtudaginn, 10. desember kl. 7:00 á íslenskum tíma.

Hér að neðan má sjá myndbrot frá podium æfingunum.

Við óskum Valgarði og Jónasi Inga góðs gengis á Evrópumótinu, Áfram Ísland!